11.04.1927
Efri deild: 50. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 1888 í B-deild Alþingistíðinda. (1416)

115. mál, bankavaxtabréf

Frsm. (Jóhann Jósefsson):

Eins og sjá má á þskj. 342 hefir fjhn. lagt til, að frv. verði samþ. Einn nefndarmaður áskilur sjer rjett til að koma fram með brtt. Nefndin hlaut eftir atvikum að líta svo á, að ekki væri unt annað en samþ. frv. Það hefir komið í ljós, sem búist var við á síðasta þingi, að þörf landsmanna fyrir fasteignaveðlán mundi ekki verða fullnægt til lengdar með þeim ráðstöfunum, sem þá voru gerðar. Eins og sjá má á brjefi Landsbankastjórnarinnar, var 5. flokki þegar í febrúar hjer um bil lokið, og af 6. flokki, sem byrjað var á í desember, er þá búið að veita lán, alt að því eina miljón, og ennfremur má sjá, að Landsbankinn liggur með meginið af þeim brjefum óselt. Þegar svo er, þá virðist það augljóst, að gengi brjefanna, sem hækkaði til muna við ráðstöfun síðasta þings, muni fara lækkandi, ef ekki verður gert neitt til þess að halda þeim í verði. Miðar þetta frv., eins og það ber með sjer, að því, að þingið gefi stjórninni umboð til þess að gera hinar nauðsynlegu ráðstafanir til þess að halda brjefunum í því gengi, sem þau hafa verið í á síðasta ári. Það var minst á það dálítið í nefndinni, — mjer þykir rjett að drepa á það hjer við umr., — að yfirleitt væri sú upphæð, sem menn fengju út á þessi veð, sem verður að telja þau bestu veð, sem hægt er að fá, fasteignaveðin, með öllum þeim tryggingum, sem lánveitendur heimta, nokkuð takmörkuð. Vitaskuld veit maður það, að höfuðástæðan fyrir því, hve lánsupphæðin út á 1. veðrjett veðdeildarinnar er takmörkuð, er það, hvað það fje er takmarkað, sem stjórn veðdeildarinnar hefir til umráða. En alt um það er það nokkuð mikið óhagræði fyrir þá, sem veðsetja þurfa þessar fasteignir nú, einkum þegar þess er gætt, að ekki er í neitt hús að venda með lán út á næstu veðrjetti. Mjer þótti rjett að láta þessa skoðun koma fram við umr., þar sem hún kom ljóslega fram í fjhn., þótt ekki sje drepið á það í nál. Hinsvegar leggur nefndin til, eins og áður er að vikið, að deildin samþykki þetta frv., og tekur þar tillit til nauðsynjar þeirrar, sem fyrir er.