25.03.1927
Neðri deild: 38. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 108 í B-deild Alþingistíðinda. (143)

1. mál, sveitarstjórnarlög

Hákon Kristófersson:

Jeg mun ekki tala langt mál að þessu sinni. Jeg ætla aðeins að snúa mjer að hv. 2. þm. Árn. (JörB), til þess að vísa heim til föðurhúsanna þeim ósönnu og miður góðgjörnu orðum, að jeg vildi draga úr ábyrgð sveitarstjórna. En jeg vil nú leggja þetta út á besta veg fyrir hv. þm. (JörB), og hann er sá, að hv. þm. (JörB) hafi ekki vit á þessu; þskj. 229 ber það best með sjer, að jeg vil ekki draga úr ábyrgðinni, því að þetta er aðeins tilfærsla, þar sem úrslitin eru ráðgerð í frv. sjálfu, og jeg er ekki að fara fram á neitt annað en að hreppsfundur geti gert út um þessi mál, sem fyrst er ætlast til, að sýslunefnd geri út um, og ef sýslunefnd er mótfallin málunum, þá, eins og jeg hefi margsinnis bent á, getur lögmætur hreppsfundur eigi að síður gert það, sem honum sýnist, hvað sem sýslunefnd segir. En að segja, að hreppsbúar sjeu ekki færir um slíkar ályktanir, það er dómur, sem jeg hjelt, að hv. þm. (JörB) myndi tæplega sjá sjer fært að kveða hjer upp, því að það skilja víst allir, hvað í slíkum aðdróttunum felst.

Hæstv. atvrh. (MG) benti til þess, að jeg vildi draga það vald frá sýslunefndum, sem þær hefðu haft frá því, að mig minnir, frá 1875. Jeg dró enga dul á það og benti á, að nú væri minni nauðsyn á slíku fyrirkomulagi en þá hefði verið. Hæstv. atvrh. (MG) benti á, að sýslumenn hefðu kvartað undan vanrækslu oddvita, en jeg get hugsað mjer, að það hafi verið eitt sjerstakt dæmi, sem hæstv. atvrh. var sjerstaklega minnisstætt. Jeg get borið um það, að það er ekki af vanrækslu hreppsnefndar eða trassaskap, þó greiðslur dragist oft fremur en vera ætti. Mjer er spurn: Hvíla sektir á sýslumönnum, ef þeir greiða ekki til ríkissjóðs á rjettum tíma þær lögboðnu tekjur, sem þeim ber að standa skil á? Þau miklu töp, sem ríkissjóður hefir margsinnis orðið fyrir, benda á, að mjög miklar misfellur munu á slíku vera. Jeg er ekki að beina þessu til hv. 1. þm. Árn. (MT), því að hann er kunnur að því að vera með fremstu yfirvöldum þessa lands að því er reglusemi snertir.

En sami hv. þm. (MT) sló því fram í ræðu, að ef sýslusjóðir fengju hluta af eignar- og tekjuskattinum, þá mundi bera minna á undandrætti á skattgreiðslu í sveitunum. Jeg get ekki sjeð það. Eða vill hv. þm. (MT) slá því föstu, að slíkur undandráttur eigi sjer stað í sveitunum? Jeg hygg, að ekki sje hægt að segja það með nokkrum rjetti. En ef um skattsvik er að ræða, sem jeg vil þó ekkert um segja, þá hlýtur skattanefndin að vera samsek. En ef þetta á sjer stað í sveitunum, sem jeg vil nú alls ekki trúa, þá hygg jeg, að ekki eigi sjer síður stað skattsvik í kaupstöðunum.

Viðvíkjandi brtt. minni við 30. gr. hefir því verið haldið fram, að slíkt ákvæði væri í lögum. En jeg verð að mótmæla því.

Jeg ætla ekki að deila meira um þetta. En jeg slæ því föstu, að till. mínar sjeu mjög til bóta, hvernig sem hv. 2. þm. Árn. (JörB) vill umhverfa þeim með því að segja, að þær muni draga úr rjettarörygginu. Hann hefir sömu aðferð við till. mínar og sagt er, að viss persóna hafi við lestur biblíunnar. Hann les þær öfugt.