17.05.1927
Neðri deild: 78. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 1922 í B-deild Alþingistíðinda. (1434)

134. mál, seðlainndráttur Íslandsbanka

Forsrh. og fjrh. (Jón Þorláksson):

Það er náttúrlega að formi til rjett hjá hv. 1. þm. N.-M. (HStef), að Íslandsbanki gæti fengið það fje uppbætt, sem samsvarar seðlainnlausninni, með því að selja Landsbankanum víxla, sem svara til inndráttarins. En ástandið er nú á þá leið, að stjórnir beggja bankanna eru sammála um, að ekki sje æskilegt, að slík endurkaup á víxlum þurfi að aukast á þessu ári um það, sem þessari fúlgu nemur. Jeg held, að rjett sje að taka tillit til þessa álits. En að því er framtíðina snertir, þá er nú búið að mynda bankaráð við Landsbankann, sem eftirleiðis getur ráðlagt þinginu, hvað gera skuli í sambandi við seðlainndráttinn. Þessara ráðlegginga er ekki kostur nú, og því sje jeg ekki annað ráð vænna en að fara í þetta sinn eftir samhuga áliti framkvæmdastjórna beggja bankanna.