17.05.1927
Neðri deild: 78. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 1923 í B-deild Alþingistíðinda. (1436)

134. mál, seðlainndráttur Íslandsbanka

Halldór Stefánsson:

Það eru örfá orð. Hæstv. forsrh. sagði, að ástand viðskiftalífsins væri svo, að bönkunum kæmi saman um, að rjettara væri að fara þessa leið heldur en að láta Íslandsbanka fá að sæta endurkaupum á víxlum, sem samsvaraði seðlainndrættinum. Ástæður hans fyrir þessu voru nokkuð óljósar, og hann forðaðist vandlega að nefna hina virkilegu ástæðu. Jeg sje ekki, að annað geti legið bak við álit Landsbankans en að honum þyki ekki vert að endurkaupa meira af víxlum en hann hefir þegar gert, vilji firra sig ábyrgð og íhlutun um þetta efni með því að skjóta málinu til Alþingis.

Þá sagði hæstv. ráðh., að rjett myndi að veita þessa undanþágu í þetta sinn. Mjer þótti gott, að hann skyldi orða það svo. En jeg vildi þá spyrja, hvort hann áliti ekki rjett að endurtaka þessa undanþágu á næsta þingi, ef beiðni Íslandsbanka um það lægi fyrir og báðir bankarnir væru sammála um að æskja þess „vegna örðugleika í viðskiftalífinu!“

Jeg tek undir það með hv. þm. Str., að mjer finst óviðkunnanlegt að bera þetta mál fram á síðustu stundu og varna þannig þinginu þess að kynna sjer ástæður málsins. Jeg hefi ekki orðið var við þær breytingar á viðskiftalífinu síðan þing kom saman, að ekki hafi verið sömu ástæður þá og nú, og síst minni, til þess að fara fram á þessa undanþágu. Jeg skil því ekki, að þetta hefði þurft að draga svo mjög á langinn.