18.05.1927
Efri deild: 77. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 1926 í B-deild Alþingistíðinda. (1449)

134. mál, seðlainndráttur Íslandsbanka

Jónas Jónsson:

Mjer finst það bæði óviðkunnanlegt og vítavert af formanni bankaráðs Íslandsbanka að koma fram með svona mikilvægt mál næstsíðasta dag þingsins. Jeg býst við því, enda þótt það verði samþykt, að þá finni menn, að það hefir verið gerð tilraun til þess að láta frv. sæta óþinglegri meðferð með því að afgreiða það nú í flughasti. Hæstv. forsrh. getur að vísu afsakað sig með því, að honum hafi ekki borist brjef bankastjórnarinnar fyr, en þar sem hann er formaður bankaráðsins og þar með æðsti yfirmaður bankans, þá ætti honum að hafa verið kunnugt um, að slík beiðni gæti komið til mála. Jeg ber ekki neinar brigður á það, að Íslandsbanka komi vel þessi heimild, en mjer þykir það óneitanlega undarlegt, úr því að hæstv. landsstjórn lagði svo mikið kapp á það að koma seðlamálunum í fast horf á þessu þingi, að hún skuli svo daginn eftir að seðlamálinu hefir verið skipað með lögum gera stórfeldar ráðstafanir í gagnstæða átt um seðlaútgáfu landsins, þvert ofan í þessi lög. Jeg vil spyrja hæstv. forsrh. (JÞ), hvað hafi verið því til fyrirstöðu, að Íslandsbanki fengi þá þessari miljón meira lán hjá Landsbankanum, en hjeldi áfram að skila seðlunum reglulega. Það eru því miður litlar líkur til þess, að Íslandsbanki eigi hægra með að skila seðlunum næsta ár eða árið þar á eftir, en með þessu skapast það ástand, að seðlaútgáfan verður um óákveðinn tíma í tvennu lagi. Íslandsbanki getur ekki skilað þeim seðlum, sem hann á að skila, en þá hefir Landsbankinn ekki það húsbóndavald, sem seðlaútgáfunni ber að fylgja.

Jeg ber ekki brigður á, að það þurfi að hjálpa Íslandsbanka, og það má ef til vill segja, að þetta sje það ódýrasta, sem Alþingi getur gert í því efni, ódýrara en nýtt lán.

Þá vil jeg ennfremur spyrja hæstv. forsrh., hvort Íslandsbanki hafi fengið eina miljón af ameríska láninu án tryggingar. Jeg býst við, að þetta sje missögn, en af því að því er alment trúað, að hæstv. stjórn hafi ráðstafað þessu þannig, og af því að þetta, sem nú er farið fram á, er næsta miljónin til Íslandsbanka, þá hefi jeg leyft mjer að beina þessum spurningum til hæstv. ráðh.