18.05.1927
Efri deild: 77. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 1928 í B-deild Alþingistíðinda. (1450)

134. mál, seðlainndráttur Íslandsbanka

1450Forsrh. og fjrh. (Jón Þorláksson):

Það er misskilningur hjá hv. 1. landsk. (JJ), að það sje vítavert af formanni bankaráðs Íslandsbanka að koma hvað eftir annað með slíkar málaleitanir til Alþingis, eins og hann komst að orði. Hann hefir aldrei komið með slíkar málaleitanir fyrr. Það kom slík málaleitan fram á síðasta þingi, borin fram af fjármálaráðherra, og tók hann það upp hjá sjálfum sjer. En þau tilmæli, sem hjer er um að ræða, komu til mín í lok aprílmánaðar, en þá var Landsbankafrv. til umr. í hv. Nd., og vildi jeg ekki tefja hv. fjhn. þar með því að senda henni þetta þá þegar, og að öðru leyti þurfti að bera þetta fram á annan hátt en nú er gert, ef Landsbankafrumvarpið hefði ekki verið samþykt. Jeg vildi ekki, að það þyrfti tvenn lög um þetta, og því vildi jeg ekki láta hv. fjhn. hafa þetta fyr en Landsbankafrv. væri samþykt. Þarf því nú ekki að fá framlengda eldri lagaheimild um bráðabirgðaseðlaútgáfu. Háttv. fjhn. fjekk svo málið í hendur 12. þ. m. Þar með hefi jeg svarað næsta athugasemd hv. þm., um að frv. var borið fram í þessu formi, því það þurfti svo að vera, til þess að það væri í samræmi við núgildandi Landsbankalög.

Þá spurði hv. þm., hvað hefði verið því til fyrirstöðu, að Íslandsbanki fengi lán sem þessu svaraði. Því er til að svara, að bankastjórn Landsbankans áleit meira lán ekki hentugt. — Þetta er aðeins form, að Landsbankinn taki við viðskiftum Íslandsbanka með endurkaupum víxla hans, því Íslandsbanki er ábyrgðarmaður fyrir viðskiftamenn sína á víxlunum á eftir þeim. Landsbankastjórnin áleit ekki hentugt að veita Íslandsbanka meira lán, en áleit hentugra, að hann drægi ekki inn 1 miljón á yfirstandandi ári í staðinn. Nú hefir verið skipað bankaráð í Landsbankanum, er á meðal annars að fjalla um seðlaútgáfuna, og á hv. 1. landsk. sæti í því. Út af áhyggjum hans af því, að seðlaútgáfan verði föst við Íslandsbanka, þá vona jeg, að honum verði gefið vit til þess að rækja svo starf sitt í bankaráðinu, að hann geti ráðið fram úr því vandamáli.

Hv. þm. viðurkendi, að þetta væri hið ódýrasta, sem Alþingi gæti gert til að rjetta bágstaddri atvinnugrein, sem Íslandsbanki skiftir við, hjálparhönd. Er það alveg rjett hjá háttv. þm., að þetta liggur hendi næst.

Þá vjek hv. þm. að sögu um 1 milj. króna, sem landsstjórnin hefði afhent Íslandsbanka. Jeg veit ekki, við hvað hv. þm. á með þessu. Jeg veit ekki til þess, að landsstjórnin hafi látið Íslandsbanka fá neina 1 miljón. En ef sagan á við það, sem Íslandsbanki fjekk hjá Landsbankanum, þá þori jeg að fullyrða það, að Landsbankastjórnin hefir tekið tryggingu af Íslandsbanka fyrir því láni, en landsstjórnin blandaði sjer ekkert í það mál.