18.05.1927
Efri deild: 77. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 1930 í B-deild Alþingistíðinda. (1451)

134. mál, seðlainndráttur Íslandsbanka

Magnús Kristjánsson:

Það hefði ef til vill verið hyggilegast fyrir mig að leggja ekkert til þessa máls vegna kosningaúrslitanna í gær í sameinuðu þingi, því að það kann að verða skoðað svo, að þau hafi haft einhver áhrif á afstöðu mína til málsins. En svo er þó ekki. Jeg hefi lýst því yfir áður hjer í þessari hv. deild, að vegna ráðstafana, sem þegar hafa verið gerðar af hálfu löggjafarvaldsins til styrktar Íslandsbanka, að jeg tel óhjákvæmilegt, að þing og stjórn sjái svo um, að starfsemi bankans geti farið fram á þann hátt, að viðskifti við hann verði landsmönnum ekki óbærileg. Úr því að landið hefir veitt Íslandsbanka svo mikinn stuðning á ýmsan hátt og Landsbankinn veitt honum stórlán, að sumu leyti fyrir tilhlutun þings og stjórnar, þá er ekki nema eðlilegt, úr því að landsstjórnin hefir umboð löggjafarvaldsins til þess að skipa 2 af 3 bankastjórunum, að litið verði svo á, að bankinn sje undir svo sterku eftirliti hins opinbera og hagsmunir hans svo nátengdir hagsmunum almennings, að þingið verði að sjá um, að starfsemi bankans geti haldið áfram á þann hátt, sem þjóðinni er fyrir bestu. Það þarf ekki að líta svo á, að með þessari undanþágu sje verið að veita bankanum lán; það er aðeins tilraun til þess að gera honum fært að veita viðskiftamönnum sínum greiðslufrest, svo að ekki hljótist stórtjón af vægðarlausri hörku við skuldainnheimtuna. Hvernig sem á þetta er litið, þá er það forsvaranlegt að veita bankanum þennan frest á að innleysa seðlana, til þess að varna því, að hann þurfi að ganga að mönnum, sem eiga skuldir að gjalda honum og við það mundu komast í mjög tilfinnanlega fjárþröng. Þetta er svo þýðingarmikið, að ekki verður komist hjá því að samþykkja þennan frest. Það er að vísu erfiðleikum bundið, hve seint málið er fram komið, en þó er ekki vonlaust um, að því megi bjarga við með góðum vilja. Jeg býst við, að gerðar verði aths. við það, sem fram hefir komið frá minni hálfu í þessu máli, en þá er jeg þess reiðubúinn að skýra nánar afstöðu mína til þess. Jeg skal geta þess í þessu sambandi, að á slíkum erfiðleikatímum sem þeim, er nú eru yfirstandandi, þá teldi jeg það ekki hneyksli, þó að til orða kæmi, að nauðsynlegt væri að samþykkja lög um skuldagreiðslufrest á ýmsum skuldum. Því er þetta lítillega í áttina til þess að bjarga mönnum frá yfirvofandi fjárhagsvandræðum.