14.02.1927
Efri deild: 5. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 1943 í B-deild Alþingistíðinda. (1471)

22. mál, skipun prestakalla

Jónas Jónsson:

Af því að þetta frv. er ekki alveg nýtt hjer í deildinni, þá tel jeg heppilegt, að stjórnin skýri frá því, hvers vegna hún kemur nú fram með það, þar sem þessi hv. deild hefir felt það fyrir nokkrum missirum, af ástæðum, sem virðast vera til staðar enn. Jeg hygg, að engum, sem heyrðu fjármálaræðu hæstv. ráðherra, hafi getað blandast hugur um það, að fjárhagur landsins er ekki góður, og ekki er útlit fyrir, að hann fari batnandi á næsta ári. Það má búast við kreppu og hallæri, sem viðbúið er að geti staðið nokkuð lengi hjer eins og erlendis, þar sem orsökin er sameiginleg, sem sje verðbreyting peninganna. Jeg vil nú skjóta því til stjórnarinnar, hvort hún geti ekki búist við því, að krafa um fækkun embætta komi fram við næstu kosningar. Ef svo fer, sem ekki virðist ósennilegt, að fjárhagur einstaklinga og ríkissjóðs fari versnandi á næstu árum, þá er ekki um nema tvent að gera, annaðhvort að stöðva allar verklegar framkvæmdir eins og gert hefir verið áður, eða þá að færa saman embættafjöldann. En núverandi stjórn hefir ekki verið sparsöm í því efni, því að hún hefir stofnað mörg ný embætti. En jeg verð að segja, að það er furðu djarft að koma fram með frv. um fjölgun embætta, þegar hallæri vofir yfir. Það, sem hjer liggur fyrir, er þá það, að stofna í byrjun þingsins embætti, sem áður hefir verið álitið, að hægt væri að komast af án. Eftir fylgiskjalinu virðist svo, sem þeir prestar, sem lögum samkvæmt eru skyldir til þess að þjóna embættinu, skorist undan því, og er ætlast til þess, að Alþingi beygi sig fyrir þeim. Jeg skal játa, að það væri ein ástæða til að verða við óskum stjórnarinnar um þetta efni, ef hægt væri að leggja annað embætti niður um leið og þetta er stofnað. Það leit út fyrir í fyrra, að erfitt væri að ná samkomulagi við prestinn á Þingvöllum um að hann leyfði afnot jarðarinnar, svo ekki var annað sýnna en hætta yrði við 1000 ára afmælishátíðina, eða gera þá breyting á, að presturinn á Mosfelli tæki að sjer Þingvallaprestakall. Nú vil jeg spyrja hæstv. forsrh., hvort meining hans sje með þessu frv. beinlínis að fjölga embættum, eða hvort hann vill stuðla að því, að Þingvellir verði sameinaðir þessu embætti, ef það verður stofnað.