05.04.1927
Efri deild: 45. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 1947 í B-deild Alþingistíðinda. (1478)

22. mál, skipun prestakalla

Frsm. (Guðmundur Ólafsson):

Með lögum um skipun prestakalla frá 1907 var Mosfellsprestakall, sem í voru 3 kirkjusóknir, lagt niður sem sjerstakt prestakall og sóknum þess skift niður á tvö næstu prestaköll, þannig, að Brautarholtssókn lagðist undir Reynivallaprestakall, og Lágafells- og Viðeyjarsóknir undir Reykjavíkur dómkirkjuprestakall. Hið sama gilti um þetta prestakall og önnur, sem lögð voru niður eftir þessum lögum, að breytingin átti ekki að koma til framkvæmda fyr en þáverandi prestar (í þessu tilfelli Mosfellspresturinn) færu úr embætti. — Þrátt fyrir þessi lagaákvæði var Mosfellsprestakall eftir sem áður sjálfstætt prestakall enn í 15 ár, eða til 1922, er presturinn þar andaðist.

Þá er lögin áttu að koma til framkvæmda, sást þegar, að erfitt eða öllu heldur lítt mögulegt var að söfnuðir Mosfellsprestakalls fengju viðunandi prestsþjónustu á þennan hátt, sem bæði stafaði af því, að dómkirkjusöfnuðurinn var nú orðinn svo fjölmennur, að prestar hans höfðu þar meira en nægilegt að starfa, og að Reynivallaprestur skoraðist alveg undan að bæta á sig prestsþjónustu í Brautarholtssókn. — Hvað þetta fyrirkomulag var óviðunandi kom þegar í ljós, því að á Alþingi 1923 bar hv. 1. þm. G.-K. fram frv. í þessari hv. deild, um að Mosfellsprestakall væri aftur tekið upp sem sjerstakt prestakall. Frv. var þá vísað til nefndar og lagði hún eindregið til, að það væri samþ., þótt svo yrði ekki að því sinni. — í stuttu máli hefir reynslan orðið sú, að ríkissjóður hefir altaf orðið að kosta prestsþjónustu í kirkjusóknum Mosfellsprestakalls, í raun og veru þvert á móti fyrirmælum laganna 1907 um skipun prestakalla. Aðeins 2 eða 3 ár var enginn prestur á Mosfelli, því að síðan 1924 hefir verið þar settur prestur. Þótt svo hafi nú orðið að vera, þykir allshn. það alt annað en viðfeldið. Jeg vil benda hv. þd. á, að samþykt þessa frv. getur ekki orðið til þess að skapa neitt fordæmi, sakir þess að á þingi 1925 var samþykt svipað frv. umskiftingu Ísafjarðarprestakalls í tvö prestaköll. — Báðar þessar breytingar sýna það, að í 1. 1907 hefir verið fulllangt gengið um fækkun prestakalla. Hygg jeg, að bæði dæmin sýni það greinilega, að ekki var fært að leggja þessi prestaköll niður. — Þótt Alþingi sje mótfallið fjölgun embætta, verður það ekki talin ástæða gegn þessu frv. Hjer er ekki um neitt slíkt að ræða, sakir þess að aldrei hefir verið unt að leggja embættið niður, nema á pappírnum.

Eina brtt. ber allshn. fram við frv., að á eftir 1. gr. bætist við ný grein, svo hljóðandi: „Skyldur skal Mosfellsprestur að taka að sjer prestsþjónustu í Þingvallasókn, ef Þingvellir verða lagðir niður sem sjerstakt prestakall“. Þar með hygg jeg, að frv. sje gert heldur aðgengilegra fyrir þá, sem eru á móti því að fjölga embættum. Ef það kæmist til framkvæmda, sem brtt. gerir ráð fyrir, yrði enginn prestur á Þingvöllum.

Loks vil jeg óska þess, að hv. deild samþ. frv. ásamt brtt. á þskj. 296.