30.04.1927
Neðri deild: 63. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 1954 í B-deild Alþingistíðinda. (1496)

22. mál, skipun prestakalla

Pjetur Ottesen:

Með lögunum um skipun prestakalla frá 1907 og um brauðasamsteypur var svo ákveðið, að Brautarholtssókn skyldi falla undir Reynivallaprestakall, en Lágafells- og Viðeyjarsóknir falla undir Reykjavíkurbrauðið.

Þegar þetta ákvæði átti að koma til framkvæmda, færðust Reykjavíkurprestar undan því að taka að sjer prestsþjónustu í þessum söfnuðum og færðu sem ástæðu fyrir því, að þeir væru svo störfum hlaðnir, að á þau væri ekki bætandi. En frá Reynivallapresti munu engin mótmæli hafa komið, eftir því er jeg best veit.

Var þá horfið að því ráði af kirkjumálastjórninni, að fenginn var ungur prestur til þess að þjóna Mosfellsprestakalli, og hefir staðið svo um nokkur ár án þess að sú ráðstöfun hefði stoð í lögum.

Nú hefir hæstv. stjórn borið fram í hv. Ed. frv. til laga um að endurreisa Mosfellsprestakall. Var það frv. samþykt í hv. Ed. með þeirri viðbót, að Þingvallasókn fjelli á sínum tíma undir Mosfellsprestakall. En í meðferð þessarar hv. deildar á frv. var þetta ákvæði felt í burt, svo að nú er ekki annað eftir í frv. en að endurreisa Mosfellsprestakall.

En þessari skipun er jeg algerlega mótfallinn. Ekki þó vegna þess, að jeg telji ekki, að sjálfsagt sje að sjá þessum söfnuðum fyrir prestsþjónustu, heldur er jeg á móti að stofna eða lögfesta þarna nýtt embætti, og það því fremur, sem mjer virðist, að leysa megi þetta mál á svo hagkvæman hátt, að allir megi vel við una. Þess vegna hefi jeg leyft mjer að bera fram brtt. á þskj. 473. Með henni legg jeg til, að Reynivallapresturinn taki að sjer að þjóna Brautarholts- og Lágafellssóknum. Eins og jeg tók fram áðan, get jeg ekki betur sjeð en að fullforsvaranlega sje sjeð fyrir prestsþjónustu í þessum söfnuðum, þó að gerð sje sú skipun, að sami prestur þjóni þetta mörgum kirkjum. Enda er það ekkert einsdæmi, að einn prestur þjóni 4 kirkjum, eins og jeg skal nú sýna fram á með tilvitnunum í lögin um skipun prestakalla.

Í Árnessýslu þjónar einn prestur 5 kirkjum og 2 sem þjóna 4 kirkjum hvor.

Í Borgarfjarðarsýslu þjónar einn prestur sem stendur 4 kirkjum, og við næstu brauðasamsteypu bætist annar við, sem þá fær 4 kirkjur.

Í Mýrasýslu er einn prestur, sem þjónar 4 kirkjum, og sömuleiðis í Snæfellsnessýslu.

Í Dalasýslu eru 10 kirkjur, en aðeins tveir þjónandi prestar. Og sem stendur mun þar vera aðeins einn prestur, sem þjónar öllum þessum kirkjum.

Í Vestur-Ísafjarðarsýslu þjónar sami prestur 4 kirkjum.

Í Húnavatnssýslu þjónar einnig einn prestur 4 kirkjum.

Í Skagafjarðarsýslu eru það tveir prestar, sem hvor um sig þjónar 4 kirkjum.

Í Eyjafjarðarsýslu þjónar einn prestur 6 kirkjum, annar 5 kirkjum og þriðji presturinn 4 kirkjum.

Í Suður-Þingeyjarsýslu eru það þrír prestar, sem hver um sig þjónar 4 kirkjum.

Í Norður-Þingeyjarsýslu er einn prestur, sem þjónar 4 kirkjum, og sama er um Suður-Múlasýslu að segja, að þar þjónar einn prestur 4 kirkjum.

Þetta, sem nú er talið, sýnir með ljósum rökum, að það er ekkert eins dæmi, þó að Reynivallapresti verði gert að skyldu að þjóna 4 kirkjum. En í þessu sambandi verður einnig að líta á, hvernig hagar til fyrir prestinn að sækja á annexíurnar. Og að því er snertir þessar sóknir, þá vildi jeg benda á, að um þær liggja sem stendur ágætis reiðvegir, öll leiðin, sem fara verður, um bygð, auk þess sem hjer er um að ræða eitthvert allra snjóljettasta svæði á öllu landinu. Að vísu eru þarna tvær ár óbrúaðar, önnur þó aðeins smáá, en hin, sem er Láxá í Kjós, getur stundum verið slæm yfirferðar, en þangað er nú verið að leggja akveg, sem vegamálastjóri hefir sagt mjer, að lokið yrði og áin að líkindum brúuð 1931–’32. Og þá er um leið kominn bílvegur um alt prestakallið og daglegar ferðir fram og aftur, svo auðveldara verður þá fyrir prestinn að gegna starfi sínu. (MJ: Það er ekki rjett, að vegurinn eigi að ná svo langt inn í Kjós). Jú, þetta er rjett; það er mjer kunnugt um. Vegurinn á að liggja að Laxá og yfir hana. Og þessi vegur er lagður með það fyrir augum, að bændur í Kjós og á Kjalarnesi geti daglega komið afurðum sínum hingað á markaðinn. Hjá fjvn. hefir legið erindi um þetta efni, og svo er óþarft fyrir hv. 2. þm. Reykv. (MJ) að ætla sjer að knjesetja vegamálastjóra, sem gefið hefir fjvn. nánari upplýsingar um þessa vegagerð.

Þá er vegalengdin, sem Reynivallapresturinn verður að sækja á annexíumar, ekki svo mikil, að hún þurfi að vaxa í augum. Sje miðað við, að hann fari þetta ríðandi, þá mun láta nærri, að frá Reynivöllum að Saurbæ sje um tveggja eða hálfrar þriðju stundar hæg reið, og þaðan einnar stundar reið að Brautarholti. En frá Reynivöllum er þessi sama leið framan undir Esju, og að Lágafelli mun vera fimm stunda reið, eða rúmlega það, ef hægt er farið. En sje aftur á móti farið frá Reynivöllum bak við Esju um Svínaskarð og eins og leið liggur að Lágafelli, þá mun það ekki vera nema um þriggja stunda reið að sumarlagi.

Þegar alt þetta er athugað, held jeg, að ekki verði annað sagt en að vel sje sjeð fyrir, að þessir söfnuðir fái nauðsynleg prestsverk unnin hjá sjer og að hjer sje ekki um meira en meðalstarf að ræða fyrir áhugasaman og duglegan prest.

Þá er eftir að ráðstafa Viðeyjarsókn, og legg jeg til með brtt. minni, að hún falli undir Reykjavíkurprestakall. Kirkjan í Viðey er leifar frá þeim tíma, er þar var höfðingjasetur. Langeðlilegast er, að Reykjavíkurprestar þjóni Viðeyjarsöfnuði. Milli Reykjavíkur og Viðeyjar eru fastar áætlunarferðir daglega, og stundum oft á dag, svo að það hlýtur að teljast hægðarleikur fyrir Reykjavíkurpresta að gegna kalli sínu þar. Viðeyjarsöfnuður stendur líka í andlegu og veraldlegu sambandi við Reykjavík, og fer því vel á, að þeir njóti sömu prestsþjónustu.

Jeg býst fastlega við því, að takast muni að ná samkomulagi við viðkomandi presta um að taka að sjer að þjóna þessum söfnuðum. En ef samkomulag kynni ekki að takast nú, þá býst jeg vitanlega við, að halda yrði þessu fyrirkomulagi þangað til prestaskifti verða í þessum prestaköllum. Þá er vitanlega hægt að skylda næstu presta til þess að taka þetta að sjer.

Jeg legg því þessar till. á vald hv. deildar og vænti þess, að þær finni náð fyrir augum hennar og verði litið á þær sem mjög heppilega úrlausn á þessu máli.