30.04.1927
Neðri deild: 63. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 1959 í B-deild Alþingistíðinda. (1497)

22. mál, skipun prestakalla

Atv.- og dómsmrh. (Magnús Guðmundsson):

Lögin um skipun prestakalla frá 1907 gátu ekki komið til framkvæmda að því er snertir Mosfellsprestakall fyr en 1924, þegar sá prestur andaðist, er þjónaði Mosfellsprestakalli. En þegar að því kom að skifta prestakallinu niður milli prestanna á Reynivöllum og í Reykjavík, þá töldu prestarnir í Reykjavík ekki fært að bæta við sig því starfi, sem leiddi af prestsþjónustu á Lágafells- og Viðeyjarsókn, og presturinn á Reynivöllum vildi ekki taka við Brautarholtssókn. Það var ekki hægt að skylda hann til þess, af því að hann hafði fengið veitingu fyrir sínu embætti svo snemma. Af þessu leiddi, að það var ekki annað hægt en að setja prest til þess að gegna Mosfellsprestakalli. Og síðan hefir verið þar settur prestur, eins og kunnugt er.

En nú er það svo um setta embættismenn, að laun þeirra hækka ekki eftir sömu reglum og skipaðra embættismanna. Þeir verða að sitja við lægstu laun, hversu lengi sem þeir þjóna settir. Því er það, að menn sjá fram á það í þessu prestakalli, að þótt þeir hafi prest í bili, þá muni þeim ekki verða haldsamt á honum, — að hann sæki á annan stað, þar sem hann fái venjulega launahækkun. Þetta hefir meðal annars orðið til þess að valda óánægju hjá prestinum, sem hlut á að máli; og söfnuðurinn óskar þess, bæði af þessari ástæðu og fleirum, að það verði skipaður prestur í þetta prestakall. íbúar þess hafa hvað eftir annað skorað á stjórn og þing að breyta þessu þannig, að Mosfellsprestakall verði endurreist. Mig minnir það væri á síðastliðnum vetri, að það kom áskorun frá svo að segja öllum íbúum prestakallsins, 299 af 328. Með tilliti til þessa er þetta frv. fram borið af stjórninni; því að það getur ekki verið mál, sem liggi milli hluta, slíkar óskir svo margra um að fá viðunandi prestsþjónustu. En það getur maður ekki gengið út frá, að verði til lengdar, nema þarna sje skipaður prestur.

Þetta er nú önnur hlið málsins. Hin hliðin er sú, að prestur sá, sem er nú á Reynivöllum, hefir tjáð sig ófúsan til að taka við Brautarholtssókn. Þar af leiðir, að jeg sje ekki, að það muni koma til neinna mála, að hann fáist nú til að taka við bæði Brautarholts- og Lágafellssókn; enda verð jeg að segja, að, það er mjög langur annexíuvegur fyrir prestinn á Reynivöllum þá tíma árs, þegar þarf að fara inn fyrir Esju. Hitt get jeg viðurkent, að það er ekki svo langt, þegar hægt er að fara Svínaskarð, en það er aðeins um hásumarið. (PO: Og haust og vor). Það er þó ekki hægt að fara Svínaskarð að vetrinum, eða mjög sjaldan. (MT: Fært árið um kring). Ætli hv. 1. þm. Árn. (MT) hafi nokkurn tíma farið yfir Svínaskarð um hávetur? (KIJ: Jeg hefi farið það í janúarmánuði, og það var ágætt). Þetta getur komið fyrir, að það sje fært; en venjulega er það alveg ófært fyrir ríðandi menn að vetrinum.

En svo er hin hlið málsins, sem veit að Reykjavík. Dómkirkjusöfnuðurinn hjer er orðinn svo stór, að þótt messað sje tvisvar í dómkirkjunni á hverjum helgum degi, þá er það ekki nema lítill hluti safnaðarins, sem kemst í kirkjuna. Því er varla hægt að fækka messum hjer. Ef hjer á að vera viðunandi guðsþjónusta, þá verða að vera tvær messur á hverjum helgum degi; en það gæti ekki orðið, ef annar presturinn yrði að fara til Viðeyjar og messa þar.

Jeg er fullviss um það, að komist brtt. hv. þm. Borgf. (PO) í lögin og til framkvæmda, þá verður það mjög til þess að ýta undir þær kröfur, sem nú þegar er farið að bóla á hjá Reykjavíkursöfnuðinum, um að fá nýja kirkju eða stækkaða dómkirkjuna. Og það ræður af líkum, að slíkt verður ekki útgjaldalaust fyrir ríkissjóðinn. Jeg er þeirrar skoðunar, að það mundi verða dýrara fyrir ríkissjóðinn heldur en sparnaðinum nemur við að skifta Mosfellsprestakalli á þann hátt, sem brtt. hv. þm. Borgf. miðar að.

Annars er það svo, að það verður að skipa þessu máli til frambúðar, einmitt af þeirri ástæðu, sem jeg nefndi, að það er ekki hægt að búast við að fá prest til að sitja á Mosfelli nema til skamms tíma. Og það verður ekki miklu ódýrara að kaupa prestsþjónustu af þeim, sem ekki væri skipaður í embættið.

Jeg hefi nú reynt að skýra fyrir hv. deild, hvers vegna þetta frv. er borið fram; og jeg vil um leið geta þess hjer, út af orðum hv. þm. Borgf., að ef svo fer, að Reynivallapresturinn vill ekki taka við þessum tveimur sóknum, sem honum eru ætlaðar samkv. brtt. hv. þm., þá sje jeg ekki annað en að halda verði áfram með eitthvað svipað fyrirkomulag og nú er. Hvað það verður lengi, er ekki hægt að segja; það fer eftir því, hve lengi núverandi prestur verður á Reynivöllum.

Jeg býst þess vegna við, að háttv. deildarmenn sjái, að það er að minsta kosti mikið álitamál, hvort hjer sje um nokkur útgjöld að ræða, og langsennilegast, að það sje alls ekki í bráð. En það sje jeg í hendi mjer, að kröfur Reykjavíkurbúa um að stækka kirkjuna eða fá nýja kirkju verði ennþá háværari, ef taka á af þeim nokkurn hluta af þeirri prestsþjónustu, er söfnuðurinn nú hefir.