30.04.1927
Neðri deild: 63. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 1962 í B-deild Alþingistíðinda. (1498)

22. mál, skipun prestakalla

Árni Jónsson:

Jeg stend upp til þess að mæla eindregið með till. hv. þm. Borgf. (PO) á þskj. 473. Það er altaf verið að tala um það á hverju þingi, að það eigi að fækka embættum; og þessi till., sem hjer er borin fram, miðar að því að koma í veg fyrir, að embættum sje fjölgað.

Hjer hagar svo til um þessar sóknir, að þar er yfirleitt um lítilfjörlegar vegalengdir að ræða, en betri samgöngutæki en nokkursstaðar annarsstaðar á landinu. Þegar verið er að tala um það, að t. d. Kjósarprestinum sje ókleift að þjóna Brautarholti, þá vil jeg til samanburðar nefna örfá dæmi úr þeim hjeruðum, þar sem jeg er vel kunnugur.

Mjer dettur þá fyrst í hug Hofteigsprestur, sem hefir þrem kirkjum að þjóna, Hofteigi, Eiríksstöðum og Möðrudal. Frá Hofteigi er að Eiríksstöðum að sumarlagi 6–7 tíma ferð. En meðan dagur er skammur að vetrarlagi, býst jeg við, að skifta þurfi dagleiðum á þessari leið. En upp að Möðrudal á Fjöllum er að sumarlagi fullkomin dagleið; og að vetrarlagi fer presturinn aldrei á minna en 2 dögum hvora leið.

Í öðru lagi skal jeg nefna Víðidal á Fjöllum. Það er Skinnastaðarpresturinn, sem þar þjónar. Jeg hefi ekki farið leiðina, en mjer er sagt, að hún sje 6–7 tíma ferð að sumarlagi.

Hjer hagar aftur á móti þannig til, að frá Viðey — sem ætlast er til, að presturinn þjóni, — eru ferðir til Reykjavíkur oft á dag, sunnudaga ekki síður en aðra daga; og það er aðeins hálftíma ferð eða eitthvað þar um bil. Og úr Mosfellssveit er ekki meira en hálftíma — í hæsta lagi klukkutíma — ferð í bíl; og það eru ekki mjög trúræknir menn, sem telja eftir sjer þá leið til þess að njóta guðsþjónustu, þegar þeir geta farið hana í rólegheitum, sitjandi í sínum bílum.

Mjer skildist á ræðu hæstv. atvrh. (MG), að þegar lögin áttu að koma til framkvæmda viðvíkjandi Mosfellsprestakalli 1924, þá hefði komið í ljós, að prestarnir í Reykjavík hafi ekki þóst geta gegnt prestsþjónustu þar. Má vera, að það sje nokkuð óhægt; en jeg skil þó ekki í því, ef fylgt hefði verið vel á eftir, að presturinn hefði þurft að horfa í að taka þetta að sjer fyrir einhverja aukaborgun.

Viðvíkjandi Reynivallapresti vil jeg ekki rengja, að hann sje ekki skyldugur að taka meira að sjer. En sá prestur, sem þar er nú, situr þar ekki að eilífu, svo að sá, sem kemur næst að Reynivöllum, getur orðið skyldaður til að þjóna í Brautarholti.

Hæstv. ráðh. hjelt því fram, að ekki væri hægt að framkvæma guðsþjónustu tvisvar á dag, ef annar presturinn ætti að þjóna í Viðey. Jeg sje ekki betur en að annar presturinn ætti að geta framkvæmt tvær guðsþjónustur hjer á einum degi. Jeg veit, að hæstv. ráðh. (MG) verður að standa í meiri og örðugri ræðuhöldum daglega heldur en presturinn þyrfti að gera, þótt hann framkvæmdi tvær guðsþjónustur á dag í kirkjunni.

Jeg skal svo ekki fjölyrða um þetta, en mæli sem sagt mjög eindregið með þessari till. hv. þm. Borgf.