05.05.1927
Neðri deild: 67. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 1970 í B-deild Alþingistíðinda. (1505)

22. mál, skipun prestakalla

Jón Guðnason:

Við 2. umr. þessa máls hjer í deildinni var feld burt 2. gr. frv., þar sem var ákvæði um það, að Mosfellspresturinn væri skyldur til þess að taka að sjer að þjóna Þingvallasókn, ef það prestakall yrði lagt niður. Þess hefir orðið vart, að ýmsir hv. þdm. hafa snúist móti frv. fyrir þá sök, að 2. gr. var feld úr því, og fyrir því hefi jeg leyft mjer að koma hjer fram með brtt. á þskj. 505, ef það gæti orðið til þess, að frv. sjálfu, sem jeg tel nauðsynlegt, að nái fram að ganga, væri betur borgið hjer og í hv. Ed. — Jeg veit, að það hefir vakað fyrir þeim, sem greiddu atkv. með því að fella burt 2. gr. frv., að óviðfeldið væri að fella niður sem sjerstakt prestakall Þingvelli, þar sem er um hinn fornfrægasta stað á landinu að ræða, og þeir hafa kunnað illa við, að sá staður yrði sviftur presti sínum. Aftur á móti hafa vakað fyrir þeim, sem óskuðu að halda þessu ákvæði í frv., sjerstakar ástæður, sem jeg skal ekki fara nánar út í.

Jeg lít svo á, að þó að Þingvallaprestakall yrði lagt niður, eða yfirleitt þó að breyting yrði gerð á skipun prestakalla í nánd við Reykjavík á næstu árum, þá sje ekki rjett að ákveða þá breytingu fastlega í þessum lögum. Það verður að takast út af fyrir sig, þegar að því kemur. — Jeg hefi heyrt á einum hv. þm., — ekki þó í ræðu, heldur í samtali —, að komið gæti til mála, ef til sameiningar kæmi, að leggja Þingvallasókn undir Reynivelli, en taka aftur eina sóknina þaðan og leggja undir Mosfell. Jeg skal auðvitað engan dóm á þetta leggja, því að jeg er þarna ókunnugur. En jeg tel, að ef brtt. mín verður samþ., þá sje að öllu leyti eins hægt um sameining og niðurlagning, ef til þess kemur, og það var með 2. gr. frv., sem feld var burt. Það er reyndar öllu heldur hægara með brtt. minni, af því að hún er rýmri og víðtækari en greinin var, sem tók aðeins til Þingvallasóknar. Vænti jeg því, að brtt. verði samþ. og að þeir hv. þm., sem undu því illa, að ákvæðið um Þingvelli var felt niður, geti þá felt sig við frv. og greitt því atkv. út úr deildinni.

Það er vitanlegt og má vel búast við því, að miklar breytingar geti orðið hjer í kringum Reykjavík á næstu árum, sem útheimti, að skipun prestakalla þurfi að breyta, og er þá gott að hafa í lögum þetta ákvæði, sem jeg hefi borið hjer fram. Jeg hygg svo, að jeg þurfi ekki að taka neitt fleira fram viðvíkjandi brtt.