29.04.1927
Neðri deild: 62. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 1987 í B-deild Alþingistíðinda. (1517)

112. mál, Mosfellsheiðarland

Frsm. (Jörundur Brynjólfsson):

Það var eitt, sem mjer láðist að taka fram í fyrri ræðu minni, sem sje það, að mælast til þess við hv. flm. (ÓTh), að hann tæki frv. aftur. Og þó að það sje kannske um seinan nú, þá ætla jeg nú samt að fara fram á það við hann.

Annars þarf jeg ekki mörgu að svara honum og get víst orðið við þeim tilmælum hans að halda ekki langa ræðu.

Það er fjarri mjer að lasta háttv. flm. (ÓTh) fyrir það, að hann reyni eftir bestu getu að túlka málstað þeirra manna, sem hjer eiga hlut að máli. En hitt held jeg, að hann geri fullmikið úr þörf eða nauðsyn sveitarinnar á því að ná eignarhaldi á þessu heiðarlandi. Annars vil jeg segja honum það, að jeg vildi miklu heldur styðja að því með atkvæði mínu að selja alla jörðina heldur en að taka undan henni landspildur. Og ætti jeg að greiða atkv. um annaðhvort þetta, mundi jeg fylgja því að selja jörðina.

Þá ætla jeg með nokkrum orðum að víkja frekar að því, er jeg sagði um jörðina í fyrri ræðu minni. Samkvæmt síðasta fasteignamati er Mosfelli lýst svo, að þar sje töðufall heimatúns 200 hestar og útheyskapur 300 hestar, sem aðallega var aflað á Víðinum. Það land er nú búið að tæta og selja af því undan jörðinni 2 teiga. Jeg hefi hjer við hendina lýsingu á jörðinni áður en þetta land var sumpart eyðilagt til slægna eða selt, og sú lýsing er á þessa leið:

„Land ekki mikið heima, nægt gripum að sumri, nokkur vetrarbeit. Sumt fjarri bak við Mosfell“. Það mun vera landspilda, sem Mosfell á norður við Leirvogsá og kölluð er „Svunta“. Það, sem farið er fram á að selja undan jörðinni með frv. þessu, er því meginhluti lands hennar, utan „Svuntunnar“ auðvitað. (MJ: Jörðin stendur strípuð uppi með eina svolitla svuntu!). Þá eru Bringur eftir og Jónssel. Í Bringum hefir verið búið um stund. Þar er lítið tún, sem gefur af sjer 60 hesta af töðu, en útheyskapur jarðarinnar talinn um 400 hestar. Annars er lýsing jarðarinnar á þessa leið:

„Land ákveðinn hluti úr heiðarlandinu, útsuðurhorn þess, rúmt og gott ætíð, er til nær, en talsvert snjóþungt. Smölunerfið (í afrjettarjaðri)“.

Nú veit jeg vel, að ábúandi Mosfells, sem verður þá presturinn ef kallið verður endurreist, geti sagt upp ábúð á Bringum og tekið það land til heimajarðarinnar. En jeg veit ekki, hvort hv. flm. (ÓTh) er ljóst, hvernig varið er landamerkjum milli Bringna og Mosfellslands. Jeg fór í stjórnarráðið til þess að afla mjer upplýsinga um þetta og fjekk það svar þar, að ákveðin landamerki mundu engin vera, því að stjórnarráðið vissi ekki til, að nokkru sinni hefði verið gengið á landamerki, heldur mundu hinir fyrri prestar hafa sagt Bringubændum, hvað af landi aðaljarðarinnar þeir mættu nota, og svo verið alla þá stund, sem Bringur hafa verið í bygð. Þess vegna er mjer ekki grunlaust um, að síðar gæti risið upp ágreiningur um þessi óljósu landamerki, og er þá leiðinlegt fyrir ríkisvaldið að hafa átt þátt í því með sölu þessa lands.

Afgjald af Bringum er metið á 60 krónur, og taki prestur jörðina úr ábúð, missir hann af þessum tekjum. En ef setja á þarna upp sauðfjárbú eins og í fyrri daga, þá er nauðsynlegt að hafa býlið í ábúð, því að of dýrt mundi það reynast, og jafnvel lítt mögulegt, að hirða um sauðfje í Bringum heiman frá Mosfelli.

Þá ætla jeg með fáeinum orðum að víkja að ræðu hv. flm. (ÓTh). Hann vildi halda því fram, að ef sveitin næði eignarrjetti á þessu umrædda landi, þá væri um leið komið í veg fyrir það, að landið yrði leigt eða girt, sem annars mundi verða. Jeg get nú ekki sjeð, að neinn skaði sje skeður, þó að engjalandið sje girt, því að þá hefir fjeð betra næði og verður ekki ónáðað af þeim, sem þarna stunda heyskap. Annars liggur í hlutarins eðli, að prestur hefir ekki heimild til að leigja landið til lengri tíma en hann hefir sjálfur ábúð á jörðinni. Hann getur á engan hátt bundið hendur eftirkomenda sinna. Og þó að líkindi sjeu til, að ungur maður verði kosinn prestur að Mosfelli, þá hefir hann enga heimild til að binda jörðinni kvaðir lengur en á meðan hans nýtur við. Ef nú ætti að samþykkja þetta frv., þá er með því skapað fordæmi, sem ekki verður vitað, hvar við lendir. Jeg veit ekki til þess, að jörð eða jarðarhlutar hafi áður verið seldir, þar sem ekki voru lögákveðin landamerki. Það eru veigalitlar ástæður, að sveitin þurfi að kaupa þetta land af því hún á lítinn afrjett. Það á sjer víða stað. Jeg þekki t. d. jörð, sem á mikið land og víðáttumikið, sem sveitin notar og borgar fyrir árlega. Það er Úthlíð í Biskupstungum. Sveitinni er nauðsynlegt að geta haldið fje sínu þar. Nú gætu einhverjir fundið upp á því að girða þetta land, en samkv. röksemdaleiðslu hv. flm. væri þá nauðsynlegt fyrir sveitina að fá landið keypt, til þess að koma í veg fyrir, að yrði girt. Og jeg þekki fleiri dæmi þessu lík.

Þá lagði hv. flm. mikla áherslu á það, að andvirði hins selda lands ætti að verja til umbóta heimajörðinni og taldi, að með því gæti prestur aukið búskapinn.

En þetta eru svo barnalegar ástæður, að varla er orðum þar að eyðandi. Nú er mjer tjáð af kunnugum manni, að þarna mætti heyja um 2 þúsund hesta, þegar vegur er kominn þangað, sem slægjur eru bestar; en nú er torvelt að ná til þeirra. Hann gæti fengið 1500–2000 kr. bara fyrir slægjur. Hvað lengi er þá verið að fá peninga langt fram yfir jarðarverðið?

Jeg kannast við ummælin úr brjefinu, sem háttv. flm. las upp. Það eru sömu ummælin sem standa í brjefi prestsins. Jeg fer að halda, að þeir hafi tekið úr brjefi prestsins til hv. þm., eða að sveitarstjórnin hafi þá orðað brjefið fyrir hann. En það skiftir ekki máli, hvort svo er. Það sýnir bara það, að presturinn, sem hefir gefið meðmæli sín með þessari sölu, hann er ekki glöggur á, hvað búskap hentar, ef hann yrði bóndi á Mosfelli. Annars þarf ekki að tala um það frekar, því að ekki er fullráðið, hver þarna komi til að þjóna, ef prestakall verður stofnað. Seinna geta líka aðrir komið þarna, sem kynnu máske betur við að nota jörðina meira til búskapar en mjer virðist þessi prestur ætla að gera. Jeg held þess vegna, að það væri í mesta máta óviðfeldið, ef Alþingi getur fallist á, að landið verði selt undan jörðinni og hafa ekki betri gögn í höndum til þess að byggja söluna á heldur en hjer liggja fyrir.

Mjer er þetta á engan hátt kappsmál eða allshn. En við höfum lagt það eitt til þessa máls, sem við teljum forsvaranlegt eins og málið hefir legið fyrir okkur og er upplýst til þessa. Að öðru leyti getur nefndinni legið í ljettu rúmi um meðferð þess. En það verður sú einstakasta afgreiðsla nokkurs þingmáls um sölu jarðar, ef þingið getur fallist á að selja þetta land.