29.04.1927
Neðri deild: 62. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 2000 í B-deild Alþingistíðinda. (1525)

112. mál, Mosfellsheiðarland

Frsm. (Jörundur Brynjólfsson):

Jeg mundi ekki hafa farið fram á að fá að tala í 4. sinn í þessu máli, ef hæstv. atvrh. (MG) hefði ekki geymt sjer að tala, þar til jeg hafði talað þrisvar sinnum. Jeg stend ekki upp til þess að fara að bera af mjer neinar sakir; þó lá það í orðum hæstv. ráðh., að honum fyndist nefndinni hafa orðið áfátt í vinnubrögðum. Jeg get ekki viðurkent þetta; ef sökin er hjá nokkrum, þá er hún hjá undirmönnum hæstv. ráðh. Jeg sneri mjer til dómsmálaráðuneytisins og spurði, hvort Bringum hefði verið löglega skift og gerðin samþykt af stjórnarráðinu. Þeir vissu ekki til þess. Þá er líka nokkuð síðan nál. kom út, svo að ef hæstv. atvrh. hefði vitað til þess, að landamæri hefðu verið sett á löglegan hátt, þá býst jeg við, að hann hefði upplýst það nú. Og þó að það upplýsist kannske, að svo sje, þá gat jeg engar upplýsingar um það fengið í stjórnarráðinu.

Hæstv. ráðh. sagði, að undanskilja mætti nægilegt land handa jörðinni. Eftir því að dæma má þá taka af því landi, sem salan á að fara fram á, og láta jörðina halda því, ef með þarf.

Þetta sýnir, hvað mál þetta er hörmulega undirbúið. Það væri viðkunnanlegra, að matið færi fram áður en selt er. Hæstv. ráðh. drap á, að prestinum mætti á sama standa, þótt landið yrði selt, ef nóg land væri eftir handa jörðinni, þar sem fjeð fyrir heiðarlandið ætti að ganga til ræktunar. Jeg býst þó ekki við, að það fje mundi nema hárri upphæð. Af þessu landi má hafa svo mikil slægjunot, hvort sem prestur hefir sjálfur eða selur á leigu, að gefa mundi í aðra hönd margfalda upphæð söluverðs á fáum árum. Sú röksemd, að prestur hafi hagnað af sölunni, er því á sandi bygð. Mjer hefir verið sagt af mjög kunnugum manni, eins og jeg hefi áður sagt, að heyja megi á þessum slóðum 1000–2000 hesta. Það er ekki hátt reiknað 1000–1500 kr. árlegar tekjur.