29.04.1927
Neðri deild: 62. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 2005 í B-deild Alþingistíðinda. (1533)

112. mál, Mosfellsheiðarland

Magnús Torfason:

Hv. 2. þm. G.- K. (ÓTh) þóttist upplýsa, að það væri misskilningur, að jeg hefði farið um þessi lönd, sem á að selja. Jeg fór einmitt yfir part af þeim. Og jeg skal skýra frá tildrögum þessa ferðalags. Þingvallasveitarbúar höfðu talað um vegarstæði á þessum slóðum og lagt fast að mjer um það, að vegur yrði þar lagður. Jeg taldi mjer því skylt að athuga leiðina sem best. Þótt jeg sje ekki eins hlaupalegur og hv. 2. þm. G.-K. — (ÓTh: Hvorki andlega nje líkamlega). Það getur vel verið. En hvað sem um það er, þá hefi jeg aldrei verið neinn hlaupagosi, en þó jafnan brekkusækinn, og jeg fór þar upp á fell eitt hátt, taldi það ekki eftir mjer, og leit yfir landið. Kunnugur maður var með mjer og naut jeg leiðbeininga hans. Leist mjer vel á landgæðin, og alt, sem hv. frsm. (JörB) hefir sagt um kosti þess, kemur heim við umsögn þessa manns, sem var öllum staðháttum vel kunnugur, og er í samræmi við það, sem yfirvöld og prestur á Þingvöllum hafa upplýst. Jeg get því ekki kannast við, að jeg hafi farið með skakt mál.