05.05.1927
Neðri deild: 67. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 2008 í B-deild Alþingistíðinda. (1543)

112. mál, Mosfellsheiðarland

Frsm. (Jörundur Brynjólfsson):

Jeg ætlaði ekki að tefja tímann með því að taka til máls að þessu sinni, en af því að hv. þm. Str. (TrÞ) óskaði eftir að fá að vita, hvort nefndin hefði leitað álits biskups um þetta mál, skal jeg láta þess getið, að hún hefir ekki gert það. Nefndina skiftir það engu, hvað biskup segir um þetta, þó að hann sje höfuð kirkjunnar. Það er eins og hjer sje verið að setja sig út til þess að ná þessu góða landi fyrir lítið verð. Jeg verð að telja það algerlega óverjandi, sem hjer er verið að reyna, að svifta prestinn besta hluta landsins, og jeg ætla að þeim, sem að þessu vinna, verði það minnisstætt, ef þeim tekst það. Jeg vil ekki ætla hv. þdm. það, að þeir samþ. þetta, þó að það væri ekki að undra, þótt svo færi, eins og legið hefir verið í hv. þm. til að knýja þetta fram.