05.05.1927
Neðri deild: 67. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 2009 í B-deild Alþingistíðinda. (1544)

112. mál, Mosfellsheiðarland

Tryggvi Þórhallsson:

Jeg hefi nú fengið þær upplýsingar frá hv. nefnd, að hún hafi ekki leitað álits biskups um þetta. Jeg er alls ekki sammála hv. frsm. (JörB) um það, að ástæðulaust sje að leita hans álits í máli eins og þessu. Biskup er yfirmaður kirkjunnar og því rjettur aðili til að gera till. í þessu efni, og t. d. er það altaf venja hjá okkur í fjvn. að leita hans álits um þau mál, sem snerta kirkjuna. En jeg vil láta þess getið, að jeg spurði um álit biskups í þessu máli einkum vegna þess, að jeg taldi víst, að hann mundi leggja á móti þessari sölu. Jeg hefi nefnilega við nána athugun komist að þeirri niðurstöðu, að þessi sala eigi alls ekki að fara fram. Það er nú vitað, að það verður eftir fá ár lagður nýr vegur til Þingvalla, og hann verður ekki lagður eftir háheiðinni, heldur einmitt eftir þessu landi, og jeg veit ekki, hvar er aðstaða til að fjölga býlum, ef ekki þarna á þessu stóra svæði, sem liggur mörg hundruð fetum lægra en ein blómlegasta sveitin á Norðurlandi, nefnilega Mývatnssveit, og þar að auki alveg við markaðinn.

Jeg býst við því, að hreppsnefndin í Mosfellssveit sje þannig skipuð nú, að óhætt sje að fá henni þetta í hendur, en það eru ekki nema fá ár síðan farið var þannig með eignir hreppsins, að það var til lítils sóma fyrir þá hreppsnefnd, sem þá var.