05.05.1927
Neðri deild: 67. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 2012 í B-deild Alþingistíðinda. (1548)

112. mál, Mosfellsheiðarland

Ólafur Thors:

Jeg vil, að gefnu tilefni frá hv. 1. þm. Árn. (MT), benda á það, að svo gæti farið, að afrjettur þessi yrði leigður manni, sem girti hann. Það höfðu tekist samningar milli prestsins og eins ábúanda í Mosfellshreppi, að hann tæki nokkurn hluta af afrjettinum á leigu. Jeg get vel sagt það, að leigutakinn er Thor Jensen. En ef hann fengi þetta stykki á leigu, þá mundi hann girða það. En ef landið verður girt, þá telja hreppsbúar sig illa setta og hafa því farið fram á þessi kaup. Hv. 1. þm. Árn. (MT) sagði, að hinn setti prestur á Mosfelli væri varla sjálfráður gerða sinni í þessu máli. Hvers vegna, spurði jeg. Vegna þess, svaraði hv. þm., að hann er væntanlegur biðill að prestakallinu og þarf að eiga vingott við kjósendurna. Hv. 1. þm. Árn. er dómari. Telur hann sig þá ekki sjálfráðan gerða sinna, þegar hann þarf að dæma mál manna í Árnessýslu vegna þess að hann er væntanlegur biðill við kosningar þar? Vil jeg um leið skjóta þeirri spurningu til hæstv. dómsmrh., hvort rjettaröryggi í landinu sje ekki hætta búin af slíkum hugsunarhætti yfirvaldanna.