09.05.1927
Efri deild: 69. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 2030 í B-deild Alþingistíðinda. (1557)

112. mál, Mosfellsheiðarland

Björn Kristjánsson:

Frv. þetta var borið fram í hv. Nd. eftir ósk hreppsnefndarinnar í Mosfellshreppi. Heiðarlandið er afrjettarland, ekki áfast við jörðina sjálfa, og hefir hún þess lítil not. Helstu tekjurnar af landinu eru þær, að stöku sinnum eru leigðar þar slægjur, þegar þannig árar, að þar sprettur. — Mosfellshreppur má heita upprekstrarlandslaus, en hefir mikla þörf fyrir afrjett. — Búnaðarhættir í hreppnum hafa mikið breyst á síðustu árum, þannig að farið er að stunda þar kúarækt meira en áður var, enda þótt landið sje vel fallið til sauðfjárræktar. En til kúaræktarinnar þarf aukna ræktun, svo sem menn vita. Það kemur sjer því ákaflega vel fyrir prestinn á Mosfelli að fá peninga fyrir heiðarlandið, til þess að geta ræktað heimajörðina. Enda er fullkomið samkomulag um söluna milli núverandi prests og hreppsnefndarinnar. Þau sjá, að salan er báðum aðiljum fyrir bestu. — Jeg vona, að að umr. lokinni verði frv. vísað til hv. allshn., og vil jeg biðja hana að hraða afgreiðslu þess sem mest, svo að það geti komist fram á þessu þingi.