17.05.1927
Efri deild: 76. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 2031 í B-deild Alþingistíðinda. (1561)

112. mál, Mosfellsheiðarland

Guðmundur Ólafsson:

Það var ekki margt, sem hv. frsm. (JJós) sagði, en í byrjuninni drap hann á það, að nefndin hefði kynt sjer þetta mál eftir því sem unt var. Jeg vil nú ekki segja, að þetta sjeu bein ósannindi, en nálœgt því var það. Jeg verð að segja það, að nefndin hefir svo að segja ekkert kynt sjer málið, því að hún hafði ekki litið á það áður en nál. var gefið. En þessi meðferð á málinu gerði mig einráðinn í því að vera á móti því að svo stöddu og áður en jeg hefi getað kynt mjer það. Það er vel trúanlegt, að hreppsnefndin vilji fá þetta land og þykist hafa þörf á því. Lásum við umsögn oddvitans þar um það eftir að nál. var gefið, en ekki var frágangurinn á henni svo, að það gæti styrkt mig í þeirri trú, að rjett væri að selja.

Það er nú venjulega svo, þegar af landi kirkjujarðar er selt, eins og oft hefir komið fyrir, að þá hefir verðið verið látið renna í kirkjujarðasjóð, en ekki til ræktunar viðkomandi jarðar, eins og hjer er gert ráð fyrir. En þegar málið kemur hingað svo seint, þá gefst ekki tími til að athuga þetta nánar, og er því hætt við, að afgreiðslan verði nokkuð hroðvirknisleg, enda er það ekkert nýtt í lok þingsins, og þá ekki síst nú, þegar þingið hefir staðið um 100 daga. Annars finst mjer málið ekki svo í pottinn búið, að það sje vert að drífa það af nú í lok þings. Það gæti kannske átt við þetta mál, sem háttv. 1. þm. G.-K. (BK) sagði í sambandi við annað mál, að hann hefði oft rekið sig á það, að meiri hl. í þessari deild hefði oft rangt fyrir sjer, og get jeg tekið undir það með honum.

Ef mál þetta væri vel upplýst, þá gæti jeg ef til vill fylgt því, en á upplýsingum þeim, sem gefnar eru í greinargerð frv., er ekki mikið að græða. Það getur nú verið, að það geti haft sín áhrif á prestinn og vitnisburð hans, að hann er þarna umsækjandi um prestakallið og á því verra með að koma fram sem aðili gagnvart hreppsnefndinni, sem vill kaupa þetta heiðarland.

Því hefir verið haldið fram, að prestssetrinu væri alveg skaðlaust, þó að þessi landsspilda yrði seld. En hvers vegna er þá ekki farið eins með verðið og venjulegt er, þegar kirkjujarðir eru seldar? Nei, það bendir einmitt á, að jörðin megi ekki að skaðlausu missa þetta land, fyrst presturinn á að fá söluverðið til ræktunar heima. En ef þessi tilhögun er rjett á þessum stað, þá ætti hún eins að vera það á öðrum stöðum, þar sem líkt hefir staðið á. — Jeg sje svo ekki ástæðu til að segja fleira að þessu sinni.