17.05.1927
Efri deild: 76. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 2036 í B-deild Alþingistíðinda. (1565)

112. mál, Mosfellsheiðarland

Guðmundur Ólafsson:

Hv. þm. Seyðf. (JóhJóh), sem er formaður í nefnd þeirri, er átti að fjalla um málið, játaði, að nefndin hefði ekki athugað það, en sagði, að það væri ekkert verulegt að athuga við söluna. Svona ummæli sýna, að það er hyggilegt að tala varlega, þegar menn hafa ekki kynt sjer neitt málið. — Þá sagði líka hv. þm. (JóhJóh), að ef presturinn á Mosfelli ætti að gera fjallskil af þessu landi, þá mundi það verða honum til mikillar byrðar. En það er nú hið venjulega, að ef land einhverrar jarðar liggur þannig, að margt af fje nágrannanna gengur þar, þá er ekki heimtað, að eigandi eða ábúandi jarðarinnar smali það einn.

En mig furðar á einu. Ef hreppsnefnd Mosfellshrepps álítur það svo mikla nauðsyn að fá þetta land, — hvers vegna hefir þá beiðnin um það ekki komið fyr? Það var þó tækifæri til þess meðan enginn prestur var þar. Eða hefir hreppsnefndin ekki sjeð það fyr en nú, að henni var nauðsyn á að fá land þetta? Það sýnist benda á, að annað liggi hjer á bak við en nauðsyn hreppsins á að fá þetta fyrir afrjettarland.

Þá sagði hv. 2. þm. Rang. (EJ), að jeg mundi nú hafa eins oft rangt fyrir mjer og meiri hl. í þessari deild. Jeg tel þetta ekkert last. Það er gott fyrir mig, ef jeg hefi ekki oftar rangt fyrir mjer en aðrir hv. þdm. Annars sagði jeg þetta nú aðeins út af ummælum þeim, er hv. 1. þm. G.-K. (BK) hafði í ræðu, er Landsbankamálið var hjer til umr., er hann sagði, að meiri hlutinn hefði eins oft rangt fyrir sjer og minni hl.

Svo voru hv. 2. þm. Rang. (EJ) og hæstv. atvrh. (MG) að tala um þessa sölu í sambandi við söluna á Kornsárlandi. (EJ: Þm. ætlar að ná sjer upp). Jeg fer ekki hærra en jeg er kominn, því að jeg stend núna. Mjer skildist, að háttv. 2. þm. Rang. liti svo á, að kaupandi Kornsár hefði að lokum fengið nokkuð af heimalandi jarðarinnar fyrir ekkert; en það er ekki rjett. Hann skildi eftir nokkuð af landinu vegna þess að hann gat haft sömu not af því og hann ætti það sjálfur. Enda hefir hann haft full not þess eftir sem áður. Nei, jeg býst við, að þó að hæstv. ráðh. fari að reyna að færa rök fyrir þessari sölu, þá reynist það jafnómögulegt eins og áður. Það er líka sláandi dæmi um það, að engin nauðsyn er á þessu, að hreppsnefndin hefir ekki sótt um þetta fyr, hefir líklega alveg nýlega fundið þessa þörf á að kaupa. Það hefir einmitt staðið svo á, að það hefði legið beint við að gera það áður, er enginn prestur sat á Mosfelli, ef nokkur þörf hefði krafið. Og mjer þykir það undarlegt, að endilega þurfi að drífa svona mál í gegnum þingið í þinglokin, þó að það sje lítt eða ekkert athugað. Það er svo augljóst, að það getur ekki skift miklu máli, þó að afgreiðsla málsins biði í þetta sinn, þó að einhver þörf væri á þessari sölu. Hjer er líka alt öðru máli að gegna en um sölu margra annara kirkjujarða, sem hafa verið seldar og verðið runnið í kirkjujarðasjóðinn. Í þessu tilfelli er eins og verið sje að útvega meðmæli prestsins með þessu, með því að láta kaupverðið ganga til ræktunar heimajarðarinnar. Það er alveg augljóst, að þessu prestssetri er gert hærra undir höfði með svona ákvæðum en ýmsum öðrum prestssetrum, þar sem selt hefir verið af landinu til afrjettarnota.