18.05.1927
Efri deild: 77. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 2041 í B-deild Alþingistíðinda. (1569)

112. mál, Mosfellsheiðarland

Frsm. (Jóhann Jósefsson):

Það er þegar búið að ræða þetta mál töluvert, og má segja, að þeir, sem fyrirfram hafa verið ákveðnir á móti því, hafi fengið góðar upplýsingar hjá hv. þm. Seyðf. (JóhJóh) og hv. 1. þm. G.-K. (BK).

Háttv. þm. A.-Húnv. (GÓ) hafði margt við mál þetta að athuga. Meðal annars fanst honum undarlegt, að hreppsnefndin skyldi fyrst nú fara að vakna til meðvitundar um að fá land þetta keypt fyrir afrjettarland. En mjer finst það ekkert undarlegt. Það hefir verið upplýst, að land þetta hafi um langt skeið verið notað fyrir afrjettarland. En nú hefir sá kvittur komið upp, að landið yrði kannske girt. Er því ekki nema eðlilegt, að hreppsnefndin vilji tryggja sjer að eiga greiðan gang að landinu, en það er ekki hægt nema með því að festa kaup á því. Að farið verði að spekúlera með landið, getur ekki komið til mála, því að það er ekki eins og um einstakling sje að ræða, þar sem hreppurinn á í hlut.

Annars segi jeg eins og háttv. 1. þm. G.-K., að jeg vil ekki fara að hleypa neinu kappi í þetta mál. En það má búast við, að það komi aftur á næsta þingi, verði það ekki samþykt nú. Verð jeg að telja rjettara að samþykkja það nú þegar.