03.03.1927
Efri deild: 18. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 117 í B-deild Alþingistíðinda. (158)

4. mál, iðnaðarnám

Jón Baldvinsson:

Það er undarlegt rneð hæstv. atvrh. (MG). Ef menn eru ekki vondir og skamma hann út af hverju frv., þá heldur hann, að þeir hafi ekkert við þau að athuga. En það er nú hálfgerður hátíðisdagur í dag, þar sem hæstv. forsrh. á afmæli, og því líklegt, að menn sjeu venju fremur í hátíðishug, og ekki ósennilegt, að hæstv. atvrh. njóti þess. Jeg hefi margt við þetta frv. að athuga, þó að jeg hafi ekki talað um það með neinum þjósti. Hæstv. atvrh. má ekki verða upp með sjer og halda, að verið sje að játa honum traust, þó að ekki sje altaf verið að skamma hann. Jeg benti á tvö mikilsverð atriði í frv., sem jeg vildi láta breyta, bæði að komið væri í veg fyrir of mikla þrælkun á nemendum með löngum vinnutíma og að þeim væri trygt ákveðið sumarleyfi. Það væru mikil hlunnindi, þótt ekki væri ákveðin nema ein vika, ætti helst að vera 10 –14 dagar. Svo þyrfti að ákveða, hvenær á sumrinu leyfið skyldi veitt, til þess að það yrði sumarleyfi, en ekki eitthvað alt annað. Það mætti hafa tímabilið rúmt, t. d. júní–september. Það væri líka ákaflega mikil bót, ef sett væri ákvæði um, að nemendur á aldrinum 15–18 ára skyldu ekki vinna lengur en 7 stundir á dag, og eldri nemendur 8 stundir. Það er líka orðið svo hjer í sumum iðngreinum, að nemendur vinna ekki nema 8 stundir á dag. Vinna við sumar þessar iðngreinir, sem hjer er um að ræða, er svo óholl, að ófært er að hafa langan vinnutíma daglega. Svo er t. d. um prentsmiðjuvinnu o. fl., sem þó er talin ljett. Átta tíma vinna í prentsmiðju er óhollari heldur en 9–10 tíma vinna við t. d. trjesmíði.

Þessi tvö atriði álít jeg mjög mikilsverð og óska, að nefndin taki þau sjerstaklega til athugunar.