14.02.1927
Neðri deild: 5. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 2044 í B-deild Alþingistíðinda. (1581)

3. mál, gjald af innlendum tollvörutegundum

Forsrh. og fjrh. (Jón Þorláksson):

Þessu frv. er ætlað að útfylla eyðu, sem verið hefir í okkar tolla- og skattalöggjöf, en þó ekki að öllu leyti, því að í þessa eyðu hefir áður verið fylt með einstökum lögum. Það er svo um íslensku tollalöggjöfina, að hún hvílir á þeirri grundvallarreglu, að hár tollur er lagður á mjög fáar vörutegundir, sem sje þær, sem nefndar eru munaðarvörur. Að vísu hefir þetta nú breyst dálítið með vöru- og verðtollinum, en þeir koma ekki hjer til greina. Þeir eru lagðir á eftir öðrum reglum, eru tiltölulega lágir, en ná yfir margar vörutegundir. Að því er það snertir, að lögð eru há gjöld á fáar vörutegundir, þá nær sú löggjöf aðeins tilgangi sínum, þegar þær vörur, sem tollurinn hvílir á, eru fluttar inn frá útlöndum. Ef þær vörutegundir, sem há aðflutningsgjöld hvíla á, eru búnar til að einhverju talsverðu leyti innanlands, þá er sá tollur ekki lagður á handa ríkissjóði, heldur handa þeim mönnum, sem framleiða vöruna, sem um er að ræða. Þó getur það verið fullkomlega rjettmætt að veita innlendum iðnaði nokkra vernd í samkepninni við samskonar iðnað útlendan. Hinsvegar getur tollurinn orðið til þess að koma upp innlendum gjaldfrjálsum iðnaði á tollvörunum í skjóli tollverndunarinnar. Þetta hefir tvisvar sinnum verið viðurkent í löggjöfinni, þar sem í fyrsta lagi hefir verið lagt gjald á innlenda vindlagerð, af því að vindlatollurinn var svo hár í samanburði við tóbakstollinn, að það þótti óeðlileg vernd að láta vindlagerðina vera gjaldfrjálsa. Ennfremur var lagt gjald á innlendan brjóstsykur og konfekt, til þess að vega upp á móti aðflutningsgjaldi á þessum vörutegundum.

Nú hefir stjórninni þótt rjett að fylla í eitt skifti fyrir öll í þessa eyðu í löggjöfinni og setja heildarlög, sem lögleiði gjald á öllum þeim tollvörutegundum, sem heimilt er að búa til í landinu. Stjórninni hefir þótt eðlilegast, að fyrir hverja vörutegund væri upphæðin ekki ákveðin í krónum eftir þyngdareiningum, heldur væri miðað við aðflutningsgjaldið, reiknað eftir tolllögunum á hverjum tíma.

Í frv. er svo stungið upp á gjöldum af tollvörutegundum þeim, sem nú eru búnar til hjer á landi. En frv. er þannig samið, að auðvelt er að bæta við fleiri vörutegundum. Þetta er grundvallarhugsunin, en að því er snertir þær vörutegundir, sem þegar er lagt gjald á, þá stingur frv. upp á sama hlutfalli á milli gjalda af innlendum vörum og aðflutningsgjaldi eins og nú er. En jeg vil biðja hv. deild að taka vel eftir því, að ekki ber að líta svo á, sem uppástungur frv. um hlutfall milli tolls og framleiðslugjalds af þeim vörutegundum, sem til þessa hafa verið gjaldfrjálsar, sjeu endanlegar eða ófrávíkjanlegar. Stjórninni þótti rjett að láta frv. koma fyrir þingið, áður en leitað væri álits þeirra atvinnurekenda, sem hjer eiga hlut að máli, um það, hvaða gjald þeim sýndist sanngjarnt. Þess vegna hefir og stjórnin yfirleitt stungið upp á svo háu gjaldi, að ekki er líklegt, að sanngjarnt þyki að hækka það. En þegar frv. nú kemur til nefndar, geri jeg ráð fyrir, að atvinnurekendur snúi sjer til stjórnarinnar og nefndarinnar og beri fram sínar ástæður. En sem sagt ber ekki að líta svo á, að stjórnin haldi fast við þau hlutföll, sem stungið er upp á í frv., ef sýnt verður fram á, að þau sjeu ekki fullkomlega sanngjörn, að fengnum gögnum frá hlutaðeigandi atvinnurekendum.

Leyfi jeg mjer svo að leggja til, að frv. verði vísað til fjhn.