26.03.1927
Neðri deild: 39. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 2065 í B-deild Alþingistíðinda. (1592)

3. mál, gjald af innlendum tollvörutegundum

Forsrh. og fjrh. (Jón Þorláksson):

Jeg verð aðeins að leiðrjetta það hjá hv. 1. þm. Reykv. (JakM), að það sje tilgangur minn með þessu frv. að fella þau iðnaðarfyrirtæki, sem nú eru í landinu. Jeg hefi marglýst því yfir, að jeg vil taka fult tillit til þeirra, þannig að þau þurfi ekki að verða fyrir fjártjóni. Hv. þm. sagði, að með þessari stighækkun sinni á tolli sje nefndin einungis að hugsa um þau fyrirtæki, sem nú eru. En till. sjálf er ekki í samræmi við þetta, því að hún gerir engan greinarmun á þeim fyrirtækjum, sem nú eru stofnuð, og þeim öðrum, sem menn vilja stofna á næstu árum. Það er það, sem jeg set mest út á till. nefndarinnar, að hún er ekki í samræmi við það, sem nefndin segist sjálf meina og sem jeg álít, að ætti að vera. Um stefnuágreining gagnvart þeim fyrirtækjum, sem nú eru, skilst mjer ekki vera að ræða milli mín og nefndarinnar.

Hv. þm. (JakM) spurði: Hvað er neysla annað en eyðsla? — og kvað mig hafa sagt, að tilgangurinn með allri efnahagsstarfsemi væri sá að auka eyðsluna. Það vildi svo til, að hann vjek að mismun á þessu tvennu á eftir, þar sem hann sagði, að verndartollar ykju eyðsluna, af því að varan yrði svo dýr. En að sama skapi sem þeir auka eyðsluna, minka þeir neysluna, sökum þess, að því dýrari sem menn verða að kaupa nauðsynjar, því minna geta þeir veitt sjer af þeim. Nei, háttv. þm. ætti bara að kynna sjer dálítið þetta mál, og þá mun hann sannfærast um, að það er rjett, — enda mælir því enginn maður í gegn —, að tilgangurinn með allri efnahagsstarfsemi er að gera mönnum mögulegt að auka sína neyslu í víðasta skilningi, þ. e. a. s. veita sjer sem mest af því, sem fyrir peninga verður keypt. En það er sama og að segja: að veita sjer það sem ódýrast, því að allir hafa takmarkaðri kaupgetu yfir að ráða. Það er að veita sjer föt og fæði, bækur og yfirleitt hverjar aðrar nauðsynjar. Öli lofaði jeg að fljóta með í þessu, því að þótt það sje meðal ónauðsynlegra neyslutegunda, þá hefir það sjálfsagt eitthvað til síns ágætis. Jeg vil biðja þennan hv. þm. að hafa það aldrei eftir mjer, að jeg hafi sagt, að tilgangur okkar með þessu sje að auka eyðsluna.

Hv. þm. tók það rjettilega fram, að verndartollar gera vörur dýrar. En þeir skattleggja landsmenn ekki til ríkissjóðsins, heldur til þeirra, sem reka verndartollaða iðju. Landsmenn borga skatt í því vöruverði, sem ríkið hefir hækkað með því að leggja toll á innfluttar vörur.

Svo vildi hv. þm. halda fram, að um kaffibætinn stæði svo sjerstaklega á. Jeg er tregur til að trúa, að kaffibætir sje undantekning frá þeirri reglu um verkun verndartolls, sem hv. þm. setti fram.

Það er alveg rjett, sem hv. þm. klykti ræðu sína út með, að það er altaf gróði að því að hafa framleiðsluna innanlands, nema þegar hún verður dýrari en sú útlenda. En sú framleiðsla, sem þarf verndartolls til þess að geta lifað, hún verður dýrari en hin erlenda framleiðsla. Því að það er ekki kostnaður við kaup á erlendri vöru, þótt menn sjeu látnir borga af verðinu í ríkissjóðinn eitthvað af því, sem þeir hvort sem er verða að borga.

Jeg ætla svo að láta lokið af minni hálfu þessum umræðum, er hræddur um, að það verði ekki annað en endurtekningar, þótt haldið yrði áfram, og læt skeika að sköpuðu um atkvgr. En til 3. umr. vona jeg, að hægt verði að taka málið upp. Vildi jeg gjarnan fá samkomulag við nefndina, því að mjer skilst í raun og veru ekki vera stefnumunur milli mín og nefndarinnar, heldur finst mjer, að nefndinni hafi ekki tekist með sínum till. að ná því, sem hún sjálf viðurkennir, að sje tilætlun sín og jeg tel rjett vera.