06.04.1927
Neðri deild: 48. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 2071 í B-deild Alþingistíðinda. (1596)

3. mál, gjald af innlendum tollvörutegundum

Forseti (BSv):

Út af því, sem hv. þm. Str. (TrÞ) gat um, að 2. gr. þessa frv. hefði verið samþykt með 14 shlj. atkv. við 2. umr., þá skal jeg taka það fram, að það er samkvæmt gamalli þingvenju talið nægilegt til málsúrslita, að meiri hluti atkvæða á lögmætum fundi komi fram. Þetta er ef til vill ekki alveg rjett eftir strangasta skilningi stjórnarskrárinnar, og hefi jeg því fremur fylgt þeirri reglu, að meira en helmingur atkvæða allra deildarmanna komi fram, en hitt hefir þó því aðeins verið látið gilda, að sýnilegt þætti, að önnur afgreiðsla málsins hefði sömu úrslit í för með sjer. Jeg úrskurða því, að þessi grein sje eftir atvikum rjett samþykt.