13.05.1927
Efri deild: 73. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 2078 í B-deild Alþingistíðinda. (1604)

3. mál, gjald af innlendum tollvörutegundum

Jónas Kristjánsson:

Jeg hefi skrifað undir nál. með fyrirvara og vil leyfa mjer að gera grein fyrir þeim fyrirvara ásamt afstöðu minni gagnvart frv. í heild sinni.

Vörur þær, er um ræðir í þessu frv., eru flestar þess eðlis, að jeg tel best og heppilegast, að af þeim væri sem minst flutt til landsins. Flest eru það svokallaðar sælgætis- eða eiturnautnavörur, sem best væri, að sem minst væri neytt af. Jeg býst við, að mörgum muni kunn afstaða mín gagnvart þeim, og ætla jeg mjer ekki að þessu sinni að halda neinn fyrirlestur um lifnaðarhætti. En þó get jeg ekki látið vera að geta þess, að jeg tel óholt matarhæfi, — og þar á meðal sælgætis- og sætindaát — eiga nokkurn þátt í vaxandi meltingarkvillum, alt frá botnlangabólgu og magasárum til rotnunardauðans, krabbameinsins. Jeg er því ekki fyllilega ánægður með þetta frv., því að mjer þykir mjög ilt að gera landsmönnum ljettara fyrir að neyta þessarar óhollu vöru. Jeg fyrir mitt leyti hefði heldur kosið, að hækkaður væri að mun tollur á þessum tískuvörum, sem leiða til veiklunar á heilsu manna, heldur en að lækka hann, jafnvel þótt það gæti gefið einhverja atvinnu. Það mun ætíð veitast erfiðara að hækka toll á þeim vörum, ef tilbúningur þeirra er orðinn að atvinnuvegi í landinu sjálfu. Það er viðurkent, að tóbaksnautn hjer á landi fer mjög vaxandi. Börn og unglingar reykja „sígarettur“ sjer til skaða. Og það er sorglegt tákn tímanna að sjá framtaksemi manna beinast að tilbúningi slíkrar vöru, í stað þess að glíma við einhver nytsamari verkefni. En svona er það samt, framleiðsla á nautnavörum er sú, sem borgar sig best. Jeg vil halda því fram, að með tollum eigi að sporna við, að flutt sje nema sem minst af þess kyns varningi inn í landið. Flest af þessu eru vörur, sem eru til engra nytja, að maður segi ekki til skaða, og við getum með öllu látið vera að kaupa. Því er hár tollur á þeim rjettmætur.

Jeg er ósamþykkur frv. í meginatriðum og býst jafnvel við að greiða atkvæði á móti því. Tollurinn, sem þar er ákveðinn, er of lágur. En toll tel jeg líklegastan til þess að laga ástandið, ef hægt er. Því finst mjer frv. spor í öfuga átt við það, sem vera ætti.