13.05.1927
Efri deild: 73. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 2087 í B-deild Alþingistíðinda. (1611)

3. mál, gjald af innlendum tollvörutegundum

Frsm. meiri hl. (Jóhann Jósefsson):

Jeg vil geta þess út af ræðu hv. 4. landsk. (MK), að meiri hl. nefndarinnar er fús að taka til yfirvegunar til 3. umr. tillögu frá honum, sem færi í svipaða átt og hann mintist á. En það væri æskilegt, að hann vildi sýna nefndinni hana við fyrsta tækifæri, því að jeg býst við, að málinu verði hraðað, þar sem svo langt er liðið á þingtímann. Þeir tveir hv. þm., sem telja sig ekki hafa haft tíma til að útbúa nál. í málinu, segjast ekki vera frv. fylgjandi og óskir þeirra virðast helst ganga í þá átt, að tollvörutegundir þær, sem hjer ræðir um, ættu að vera tilbúnar hjer á landi. Þeir hljóta þó að vita, að ríkissjóður byggir tekjuáætlun sína ekki að litlu leyti á innflutningi þessara tollvara. Tollur á tóbaki nemur á 7. hundrað þús. króna, samkv. síðasta landsreikningi. Ef leyfð væri tóbaksiðn með tollvernd, mundi ríkið missa þessar tekjur. Það er annars einkennilegt, hve báðir þessir hv. þm. eru samtaka um að vernda framleiðslu þessarar munaðarvöru frá tolli. Meiri hl. fjhn. er þeirrar skoðunar, að tolla beri munaðarvörur yfirleitt, og hann vill ekki loka augunum fyrir því, hverja þýðingu sá innflutningur hefir að því leyti fyrir ríkissjóð. Jeg hefi enga tilhneigingu til að sveigja til um tolla af munaðarvörum, því ef farið væri út á þá braut að ýta undir framleiðslu þeirra með tollvernd, mundi neysla þeirra til nautna aukast, en ríkissjóður missa tekjur, sem hann ekki má við að missa. Um ívilnanir til eldri stofnana er það að segja, að það er ekkert nýtt, þegar settar eru kvaðir á einhverja framleiðslu, að tekið sje tillit til þeirra fyrirtækja, sem búin eru að starfa um langt skeið áður en kvaðirnar eru settar á. Hv. 4. landsk. er líka meiri hl. nefndarinnar sammála í þessu efni.

Jeg ætla ekki að svara háttv. 1. landsk. (JJ) því, sem hann talaði um, að afstaða okkar væri bygð á pólitískum ástæðum. Þær ásakanir eru gripnar úr sama lausa loftinu og vant er, þegar hann ætlar andstæðingum sínum miður góðar hvatir.