15.02.1927
Neðri deild: 6. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 2096 í B-deild Alþingistíðinda. (1628)

24. mál, afnám kennarastóls í klassískum fræðum

Flm. (Tryggvi Þórhallsson):

Jeg sje enga ástæðu til að fjölyrða um þetta mál, annarsvegar af því, að þetta mun vera í 3, skifti, sem slíkt frv. er borið fram hjer í þinginu, og er því áður búið að gera grein fyrir ástæðunum til þess, að það er fram komið, og nú eiga hjer sæti nær allir þeir sömu þm., sem áttu hjer sæti 1924, þegar frv. var borið fram í 2. sinn. Hinsvegar mun það ekki hafa valdið því, að frv. hefir ekki náð fram að ganga, að menn hafi ekki álitið, að vel mætti komast af án sjerstaks kennarastóls í klassiskum fræðum, heldur hitt, að kunnur maður skipaði þetta embætti. En nú, þegar embættið er óskipað, ætti ekkert að vera því til fyrirstöðu, að frv. næði fram að ganga.

Allshn. mun áður hafa haft málið til meðferðar, og legg jeg til, að því verði vísað til þeirrar nefndar að umr. lokinni.