15.02.1927
Neðri deild: 6. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 2096 í B-deild Alþingistíðinda. (1629)

24. mál, afnám kennarastóls í klassískum fræðum

Pjetur Ottesen:

Það er orðið löngu ljóst, að í raun og veru er kostnaður við embættisrekstur vaxinn þjóð vorri yfir höfuð. Enda þótt svo hafi reynst, þegar vel lætur í ári og sæmilega hefir tekist um afgreiðslu fjárlaganna, að hægt hafi verið að leggja nokkuð af mörkum til verklegra framkvæmda, þá hefir reynslan engu síður sýnt hitt, að þegar nokkuð ber út af um árferði, hefir orðið alveg að kippa að sjer hendinni hvað þetta snertir. Er ekki langt að minnast áranna 1923 og ’24, þegar ekki var hægt nema að örlitlu leyti að leggja fram fje til verklegra framkvæmda. Er eðlilegt, að þetta hafi leitt huga manna að því, að eitthvað yrði að gera til þess að draga úr þessum útgjöldum ríkissjóðs. Allar götur frá 1921 hafa verið gerðar hjer á Alþingi nokkrar tilraunir í þessa átt. Nokkur árangur hefir orðið á þann hátt, að dregið hefir verið úr kostnaðinum, en þó hygg jeg, að árangurinn liggi að mestu leyti í því, að aldan hefir verið þess megnug að standa á móti mikilli aukningu á þessu sviði. Það, sem hinsvegar hefir reynst einna erfiðast, er það, að það er ekki svo auðvelt í einni svipan að leggja niður embættin, meðan menn sitja í þeim, og því var sýnt, að það yrði að fara þá leið, að jafnframt því, sem embættin losnuðu, yrði að gera framtíðarráðstafanir um þau.

Það var á þinginu 1924, að hv. flm. þessa frv. (TrÞ) flutti þál. í þessa átt. Þar taldi hann upp nokkur embætti, sem farið var fram á, að stjórnin veitti ekki án þess að þingið hefði áður sagt álit sitt um tilhögun þeirra. Þessi embætti voru: sýslumannaembættin í Snæfellsnes-, Dala-, Barðastrandar-, Stranda-, Eyjafjarðar-, Skaftafells-, Rangárvalla- og Árnessýslum og lögreglustjóraembættið á Siglufirði, landlæknis- og bæjarlæknisembættin í Reykjavík, aðstoðarverkfræðingaembættin hjá vegamála- og vitamálastjóra, skógræktarstjóra embættið, prófessorsembætti í guðfræði og dósentsembættið í grísku við háskólann, fræðslumálastjóra- og bankaeftirlitsmannsembættin.

Þessi tillaga hv. þm. Str. var að vísu ekki samþykt, heldur önnur tillaga sama efnis að öðru leyti en því, að hún var enn víðtækari og batt hendur stjórnarinnar ekki einasta um veitingu embætta, heldur líka ýmsra sýslana, enda tók hv. þm. Str. það fram, að hann gæti fullkomlega sætt sig við hana, en lagði áherslu á, að ekki yrði í neinu vikið frá með þær embættaveitingar, er tillaga hans fól í sjer.

Eftir því sem jeg best veit, hafa nú aðeins tvö af þessum embættum losnað síðan 1924. Annað er dósentsembættið í klassiskum fræðum við háskólann, þetta, sem hv. flm. (TrÞ) vill leggja niður, eða að minsta kosti koma því svo fyrir, að kostnaður við það verði enginn. (TrÞ: Alveg rjett). Hitt er fræðslumálastjóraembættið. Mig furðar stórum, að hv. þm. Str. (TrÞ) skuli ekki jafnframt hafa borið fram till. um ráðstöfun á því embætti, t. d. að sameina það öðru embætti, en það virðist vel framkvæmanlegt. Jeg ber að vísu ekki fult skyn á, hve nauðsynlegt það er fyrir guðfræðikensluna í háskólanum að halda uppi grískukenslunni. En þar sem jeg veit, að hv. þm. Str. hefir sem guðfræðingur þekkingu til að dæma um það atriði, en þar sem hann telur, að þetta megi vel gera öllum að skaðlausu, get jeg beygt mig undir þann úrskurð hans. Um hitt embættið veit jeg, að það er töluvert umfangsmikið starf. En síðan Jón sálugi Þórarinsson dó, hefir rekstur þess verið í höndum manns, sem hefir annað því auk síns eigin embættis. Hefir það farið mjög vel úr hendi, enda þótt staðið hafi sjerstaklega á, þar sem svo var ákveðið með fræðslulagabreytingu þeirri, sem samþykt var á síðasta þingi, að fræðslumálastjóri ætti að útnefna einn mann í allar skóla- og fræðslunefndir á landinu. Meðan sú breyting var að komast á, hafði hún í för með sjer aukin umsvif fyrir fræðslumálastjóra og miklar skriftir.

Alt þetta gefur mjer bendingu um, að það sje rjettmætt og sjálfsagt að taka til athugunar aðra tilhögun á þessu embætti, til dæmis að sameina það einhverju öðru starfi, eins og nú hefir verið gert til bráðabirgða. Það eru því tilmæli mín til hv. nefndar, sem fær þetta mál til meðferðar, að hún vilji taka þetta til athugunar og jafnframt það, hvort ekki væri víðar hægt að draga úr útgjöldum á þennan hátt á fleiri sviðum en þeim, sem hjer hefir verið bent á. Jeg býst við, að flestir líti svo á, að það verði að vera eitt af aðalhlutverkum þessa þings að gæta þess, að fjárhag ríkissjóðsins sje haldið í góðu horfi.