15.02.1927
Neðri deild: 6. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 2104 í B-deild Alþingistíðinda. (1634)

24. mál, afnám kennarastóls í klassískum fræðum

Jakob Möller:

* Út af því, sem hv. þm. Borgf. (PO) beindi til mín, skal jeg vekja athygli hans á því, að frv. þetta ræðir ekki um afnám dósentsembættis í grísku við háskólann, heldur afnám kennarastóls í klassiskum fræðum. Leiðir því meira af samþykt þess en afnám grískukenslunnar, því svo er til ætlast, að haldist þessi kennarastóll, þá verði bæði latína og gríska kend áfram við háskólann. Er því hv. þm. Borgf. þar í fullu ósamræmi við sjálfan sig, er hann vill auka latínukensluna við mentaskólann, en leggja þetta embætti niður, því óneitanlega er samband þar á milli.

Annars vil jeg spyrja þennan hv. þm., hvort hann telji það sæmilegt gagnvart þjóðinni og þingmannsheiðri sínum að halda því fram í raun og veru, að verja miklu fje og miklum tíma til að kenna námsgrein, sem hann sjálfur telur af fullri sannfæringu algerlega óþarfa, aðeins til þess að draga úr aðsókn að skólanum. Jeg held, að slík yfirlýsing verði honum meira til áfellis en mjer, enda þótt hún hafi átt að verða það. Annars hefi jeg ekki getað sannfærst um rjettmæti þess að leggja þennan kennarastól niður, þrátt fyrir allar röksemdir hv. þm. Borgf.

Hv. þm. Str. (TrÞ), flm. þessa frv., viðurkendi, að nauðsynlegt væri að hafa þó svo mikla grískukenslu hjer, að guðfræðinemar gætu lært það mikið í grísku, að þeir gætu lesið nýja testamentið á frummálinu. En eins og jeg tók fram áðan, er engin trygging fyrir, að slík kensla geti átt sjer stað hjer, nema því aðeins, að sjerstakur kennarastóll í þessum fræðum verði látinn haldast við háskólann.

Hvað snertir sparnaðinn við afnám þessa kennarastóls, þá held jeg, að hann sje mjög vafasamur, þegar aðeins er um að ræða að spara nokkurn hluta af því fje, sem til hans gengur. Auk þess, sem gera má ráð fyrir, að eftir nokkur ár þurfi að fara að kosta mann við erlenda háskóla til þess að nema þessi mál. Og nú veit jeg ekki betur en hægt sje að fá mann í þetta embætti, án þess að kosta hann fyrst til útlanda. Nei, það er alveg áreiðanlegt, að þeir þingmenn, sem hafa beitt sjer fyrir að leggja þetta embætti niður, hafa ekki sparað þjóðinni neitt ennþá, og munu heldur ekki gera hjer eftir.

Þá er annað atriði þessa máls: Er sæmilegt að ganga þannig frá háskólanum, að rýja hann við hvert tækifæri þeim kröftum, sem geta orðið til þess að halda uppi heiðri hans? Jeg held, að hann sje ekki svo fjölskrúðugur, að vert sje að reyta þær fjaðrir af honum.

Þetta frv. hefði horft alt öðruvísi við, ef samhliða því hefðu komið fram tillögur um að bæta háskólann á öðru sviði. Ef um slíkt hefði verið að ræða, myndi jeg hafa tekið öðruvísi í málið. En þar sem það stefnir eingöngu að því að gera hann ómerkilegri en hann er nú, þá get jeg ekki fylgt því.

* Ræðuhandr. óyfirlesið.