05.03.1927
Efri deild: 20. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 121 í B-deild Alþingistíðinda. (164)

4. mál, iðnaðarnám

Jón Baldvinsson:

Hv. allshn. hefir ekki sjeð sjer fært að taka til greina þær brtt., sem jeg talaði um við 2. umr. Því hefi jeg flutt þessar brtt. á þskj. 109. Fyrri brtt. fer fram á það að takmarka vinnutímann úr 60 klukkustundum niður í 48. Það þykir nægilegur vinnutími fyrir fullorðna í flestum iðngreinum, 8 klst. á dag, hvað þá þegar um unglinga er að ræða eins og hjer. Hin tillagan er þess efnis, að það skuli skýrt tekið fram í 9. gr., að lærimeistari skuli gefa nemanda að minsta kosti 8 daga sumarfrí, á tímabilinu frá 1. júní til 15. sept. Jeg hefi tiltekið 8 daga, sem er sama sem ein vika, því það mætti altaf koma því svo fyrir, að undir þetta fjellu tveir sunnudagar. Þetta er ekki meira frí en flestir lærimeistarar mundu veita, þó það væri ekki lögboðið, en þeir lærimeistarar kynnu að vera til, sem mundu nota sjer það og veita ekkert sumarfrí, ef það væri ekki lögskipað. Tíminn er rúmur, frá 1. júní til 15. sept., svo ólíklegt er, að lærimeistarar geti beðið nokkurt tjón við það að veita fríið einhverntíma á þessu tímabili, en hinsvegar verður að tryggja nemendum, að þeir fái fríið að sumri til, en ekki á vorin áður en nokkurt gagn er að skemtiferðalögum vegna tíðarfarsins, eða að haustinu.

Þessar tillögur mínar miða báðar að því að tryggja rjett hinna máttarminni, og eru því í fullu samræmi við tilgang þessara laga, sem eru sett til þess að tryggja þeim lítilsigldari rjett, af því að löggjafinn álítur hann ekki færan til þess að gæta rjettar síns. Jeg vænti því, að hv. deild samþykki þessar litlu brtt. mínar; það er ekki svo sem hjer sje um neina stefnubreytingu að ræða.