07.03.1927
Neðri deild: 23. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 2122 í B-deild Alþingistíðinda. (1647)

24. mál, afnám kennarastóls í klassískum fræðum

Jakob Möller:

* Hv. þm. Str. (TrÞ) hefir ekki heyrt nema nokkuð af því, sem jeg sagði. Hann vildi fá út úr minni till., að jeg ætlaðist til þess, að embættið væri veitt með fullum launum, í stað þess að jeg vildi skora á stjórnina að veita það ekki. Hv. þm. sagði, að þetta ætti ekki að koma fram í dagskrárformi. Það er vitanlega með hliðsjón af því, að í þáltill. er oft lýst yfir þingvilja að veita ekki embætti. En þó að frv. sje vísað til stjórnarinnar, þá er engin hætta á, að embættið verði veitt án þess að komi til þingsins kasta. Svo að vinningur við að fella embættið niður er alls enginn.

Ennfremur sagði hv. þm., að þeir ætluðust til, að háskólinn fengi afganginn af þessu fje til umráða. En til þess þarf sjerstaka fjárveitingu í fjárlögum. Þess vegna er þetta misskilningur hjá hv. þm.

Annars skilst mjer, að sparnaðurinn verði ærið lítill frá því sem er; þó að launin sjeu svo og svo há, með svo og svo mikilli dýrtíðaruppbót, þá segir það ekki, hvað launin verði há, þegar dýrtíðaruppbótin minkar.

Jeg veit ekki, hvaða ár það kann að hafa verið. (JG: Það var árið sem leið). Já, en þá var 67% dýrtíðaruppbót í staðinn fyrir 44% núna. Jeg held fast við tillögu mína um að vísa málinu til stjórnarinnar.

* Ræðuhandr. óyfirlesið.