14.03.1927
Efri deild: 27. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 2135 í B-deild Alþingistíðinda. (1655)

24. mál, afnám kennarastóls í klassískum fræðum

atv.- og dómsmrh. (Magnús Guðmundsson):

Þar sem stjórnin hefir ekki flutt þetta frv., vil jeg nota tækifærið til þess að skýra hv. deild frá, hvers vegna stjórnin gerði það ekki. Ástæðan er sú, að embættið er í rauninni lagt niður, þar sem grískukenslunni hefir verið ráðstafað þannig, að hefir verið ráðinn til þess að annast hana fyrir 2000 kr. á ári. Þetta var gert í samráði við háskólaráðið, og jeg get fullyrt, að háskólinn gerir það að engu atriði, að þessu embætti verði haldið uppi.

En jeg vil í þessu sambandi bæta því við, að nú er annað embætti laust, sem fyrir liggur þingsályktun um, að ekki skuli veitt fyr en þingið hafi látið uppi álit sitt um það, og það er fræðslumálastjóraembættið. Stjórnin telur ekki fært að leggja það saman við annað embætti eða að leggja það niður. Það kom fram í hv. Nd. till. um að sameina það öðru embætti, en sú till. fjekk lítið fylgi. Vilji nú einhver hv. þm. í þessari hv. deild koma með till. um að afnema þetta embætti eða að sameina það öðru, þá er rjettast að gera í sambandi við þetta mál. Verði það ekki gert, verður embættið auglýst til umsóknar.