30.04.1927
Efri deild: 62. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 2136 í B-deild Alþingistíðinda. (1657)

24. mál, afnám kennarastóls í klassískum fræðum

Frsm. (Ingibjörg H. Bjarnason):

Jeg get verið stuttorð um frv. það, sem hjer liggur fyrir. Eins og kunnugt er, hefir það legið fyrir hv. Nd. og verið athugað þar í nefnd, sbr. nál. á þskj. 89, þar sem lagt er til, að frv. nái fram að ganga. Einnig eru tekin þar upp ummæli heimspekideildar og guðfræðideildar háskólans, er bera það með sjer, að þær eru samþykkar því, að þetta embætti verði lagt niður, svo framarlega, sem fje verði fyrir hendi til þess að halda uppi lögboðinni kenslu í grísku fyrir guðfræðinemendur. Síðan gekk frv. til hv. Ed. og hefir nú verið athugað hjer í mentmn. Nefndin hefir kynt sjer það eftir föngum, en hún hefir ekki skilað áliti sínu fyr en vitneskja var fengin fyrir því, að fje væri veitt í fjárlögum 1928 til þessarar kenslu. Nefndin er þeirrar skoðunar, að ekki megi á nokkurn hátt rýra álit eða hag háskólans, og þess vegna afgreiddi hún ekki málið fyr en vissa var fengin fyrir því, að hægt yrði að halda uppi hinni lögboðnu kenslu í grísku fyrir guðfræðinema háskólans. Nefndin leyfir sjer því, eftir að hafa athugað frv. rækilega og eftir að hafa fengið upplýst, að í fjárhagsáætlun háskólans fyrir árið 1928 er ætlað fje til þessarar kenslu, að leggja það til, að frumvarpið verði samþykt óbreytt. Jeg þarf, hjer engu við að bæta, en þó skal jeg taka það fram, að frv. fer í þá átt að spara óþörf útgjöld úr ríkissjóði, án þess þó að afnema þurfi það ákvæði í háskólalögunum, að guðfræðinemar fái kenslu í grísku. Jeg vænti svo, að háttv. deild samþykki frv. eins og það liggur fyrir.