30.03.1927
Neðri deild: 42. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 2138 í B-deild Alþingistíðinda. (1664)

37. mál, fjáraukalög 1926

Frsm. (Tryggvi Þórhallsson):

Á þinginu 1924 lagði stjórnin fram frv. til fjáraukalaga fyrir árið 1923, og námu umframgreiðslurnar samkvæmt því 46 þús. kr. Á þinginu 1925 lagði hún sömuleiðis fram frv. til fjáraukalaga fyrir árið 1924, og námu umframgreiðslurnar samkvæmt því 38 þús. Og samkvæmt fjáraukalagafrumvarpinu fyrir 1925 námu umframgreiðslurnar 196 þús., og nú samkvæmt þessu frumvarpi er gert ráð fyrir, að umframgreiðslur verði 288 þús. kr., eða meira en hin árin þrjú til samans. Það getur því engum dulist, að hjer er um allmikinn stíganda að ræða. Þó er ekki meiningin, að jeg fyrir hönd nefndarinnar fari að beina neinum sjerstökum ákúrum til stjórnarinnar fyrir það, því að það sjest, þegar nánar er athugað, að margar þessar greiðslur eru eðlilega fram komnar, sumpart afleiðing af samþyktum síðasta þings, eins og t. d. það, sem greitt er til sendiherra í Kaupmannahöfn samkvæmt 2. gr. frv., og legukostnaður Bjarna sál. frá Vogi og styrkur til mænusóttarsjúklinga samkvæmt 3. gr. Ennfremur það, sem varið var til daufdumbraskólans og miðstöðvar á Hólum samkvæmt 5. gr. Og loks alt í 8. gr.

Þá hafa sumar greiðslurnar verið greiddar í samráði við fjvn. þingsins, eins og t. d. til byggingarinnar á Bergþórshvoli og til kaupa á snjóbílnum, sem því miður hefir ekki reynst sem skyldi. Þá hefir sumt verið greitt í samráði við miðstjórnir flokkanna, og má þar til nefna fje það, sem varið hefir verið til aðgerðar ráðherrabústaðnum.

Það er nú eins og í fyrra, að sumum nefndarmönnum fanst orka tvímælis um suma ferðastyrkina og um fjárveitingar til bókaútgáfu. En þar var ekki um stórkostlegar fjárhæðir að ræða, svo ekki virtist ástæða til að gera þær að sjerstöku aðfinsluefni.

Þá hefir nefndin orðið ásátt um að bera fram eina brtt. við frumvarpið, um að hækka álagið á Kálfafellsstaðarkirkju um 1000 kr. En það skal tekið fram, að hjer er ekki um lagalega skyldu að ræða; myndi því fyllilega vera hægt að daufheyrast við þessari málaleitun safnaðarins, því að samningar hafa komist á milli safnaðarins og kirkjustjórnarinnar um afhendingu kirkjunnar. En hjer fanst nefndinni um svo mikið sanngirnismál að ræða, að alt mælti með því að mæta söfnuðinum á miðri leið. Að tekið var við svona litlu álagi á kirkjuna, var fyrst og fremst af því, að söfnuðurinn vildi fara sem vægilegast gagnvart hinum gamla og vel látna presti sr. Pjetri Jónssyni.

Í öðru lagi reyndist endurbygging kirkjunnar mun kostnaðarsamari en gert hafði verið ráð fyrir í fyrstu. Og í þriðja lagi var söfnuðinum það tæplega fullljóst, hvaða rjettarkröfur hann gat haft gagnvart presti og ríkinu.

Eins og jeg tók fram áðan, er engin lagaskylda að inna þetta af hendi, en öll sanngirni mælir með því. Vil jeg því leggja til fyrir hönd nefndarinnar, að brtt. verði samþykt.