12.02.1927
Efri deild: 4. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 2157 í B-deild Alþingistíðinda. (1708)

18. mál, laun skipherra og skipverja á varðeimskipum ríkisins

Forsrh. og fjrh. (Jón Þorláksson):

Jeg held, að því verði ekki haldið fram með rökum, að þetta sje óþarft mál, enda færði hv. 5. landsk. (JBald) engin rök fyrir því.

Þetta mál er í nánu sambandi við annað mál, sem hjer er næst á dagskrá, þar sem ákveðið er, að skipverjar á varðskipunum skuli vera opinberir sýslunarmenn ríkisins. Að í frv. þessu sje reynt að ganga á rjett þessara starfsmanna, er algerður hugarburður. Uppástunga frv. er sniðin eftir því bráðábirgðasamkomulagi, sem gert var við þessa menn. Hinsvegar mun þeim ljóst, að ríkið getur sagt þeim upp hvenær sem vill. Alþingi stendur frjálst og óbundið um að ákveða launakjör þessarar starfsgreinar. Með því er ekki brotinn rjettur á neinum. Að minni hyggju er með þessu frv. stefnt að því, sem háttv. 5. landsk. vildi líka láta nást, að fá sem best starf unnið. Jeg held, að best verði að hafa á skipunum fasta menn, sem venjast starfinu, og jeg held líka, að þeir verði ánægðari með að hafa lögtrygð laun heldur en að um þau fari eftir þeirri tilviljun, hve harðskeyttir samningamenn eiga hlut að samningum fyrir þeirra hönd. Jeg held, að með þessu frv. tryggi ríkið sjer gott starf, en þó ódýrt, og fái þá aðstöðu, sem báðum verður til hagsmuna, ríkinu og starfsmönnunum. Við þessa umr. finst mjer ekki ástæða til að fara út í það, hvort launakjörin sjeu verri eða betri en á sambærilegum skipum.