12.02.1927
Efri deild: 4. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 2158 í B-deild Alþingistíðinda. (1709)

18. mál, laun skipherra og skipverja á varðeimskipum ríkisins

Jón Baldvinsson:

Hæstv. forsrh. (JÞ) færði ekki nein rök fyrir því, að þetta mál væri þarft, svo að hjer kemur staðhæfing móti staðhæfing. En um launakjörin, sem frv. gerir ráð fyrir, er það að segja, að þau eru lægri en hjá atvinnugreinunum og hjá Eimskipafjelaginu, og af því hlýtur að leiða sífeld mannaskifti á varðskipunum.

Jeg get ekki stilt mig um að benda á, að jeg hefi hvergi sjeð gert ráð fyrir slysatryggingu fyrir þessa föstu starfsmenn, og hefði það þó átt að vera, einkum þar sem það hefir verið talinn töluverður háski að sigla með nýja varðskipinu. Hæstv. forsrh. segir, að launaákvæðin sjeu miðuð við bráðabirgðasamkomulag við skipshafnirnar. Jeg hefi nú samt ástæðu til að ætla, að skipshöfnin á öðru strandvarnaskipinu a. m. k. sje mjög óánægð með þetta fyrirkomulag. En auðvitað hefir Alþingi vald til að setja slík lög, svo sem hæstv. ráðh. (JÞ) sagði, en jeg álít, að þetta sje óheppileg löggjöf.

Hæstv. forsrh. (JÞ) virðist nú vilja leggja áherslu á að fá gott starf, en það fæst alls ekki nema menn sjeu ánægðir með kjör sín.

Jeg skal ekki að svo stöddu fara út í næsta mál, litlu ríkíslögregluna, sem svo hefir verið nefnd. Mun koma að því síðar.