26.03.1927
Efri deild: 37. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 2190 í B-deild Alþingistíðinda. (1719)

18. mál, laun skipherra og skipverja á varðeimskipum ríkisins

Frsm. annars minni hl. (Jónas Jónsson):

* Nefndin hefir haft fyrir sjer skrá um, hvað hásetarnir eigi að vera margir á skipunum; þeir eiga að vera 15 talsins. Og með tilliti til annars, sem stjórnin hefir gert, er ekki annað líklegra en að hún ráði fljótlega menn á skipin.

Það var bara yfirskotseiður, sem hæstv. ráðh. (JÞ) sór í þessu máli. Hann sagði, að svo væri ákveðið í frv., að skifta mætti um menn, ef illa reyndust. Það er satt, að hægt er að reka menn frá, eins og til er landsdómur til að dæma brotlega ráðherra. En hversu mikið hafa ekki núverandi ráðherrar gert sig brotlega, t. d. í Krossanesmálinu, án þess að hægt hafi verið að draga þá fyrir landsdóm. Afleiðingin af þessu er sú, að menn vita, að ekkert rjettlæti fæst, af því að sökudólgarnir finna altaf einhver ráð til að komast undan, þar sem vitanlegt er, að Íhaldsflokkurinn stendur sem máður við mann til að bera hver annars byrðar í þeim efnum.

Jeg vil líka benda á það, að ströng ákvæði hefðu lítið að segja, þegar eftirlitið er ekkert og reynsla er fengin um það, að jafnvel dæmdir sökudólgar fá sjerstaka viðurkenningu stjórnarinnar fyrir framferði sitt. Það var angurvær blær á rödd hæstv. ráðh., þegar hann var að tala um þennan lægstlaunaða embættismann landsins, sem ekkert hefir annað að gera en að selja lyfseðla út á áfengi og margbúið er að dæma.

Jeg vil svara hv. þm. Vestm. (JJós), þar sem hann var að tala um þennan lið, sem heyrir undir hið ljelega eftirlit stjórnarinnar. Hann vildi halda því fram, að nú væri haft strangt eftirlit og aðhald með þeim embættismönnum, sem misbrúka áfengissölu sína. En nú veit hv. þm., að læknirinn á Ísafirði, sem ekkert gerir annað en að selja vín, hefir hlotið sjerstök verðlaun af hæstv. ráðh. Það hefir enginn listamaður eða skáld fengið önnur eins verðlaun og þessi versti sökudólgur fyrir bannlagabrot. Þennan mann hefir ráðherrann viðurkent alveg sjerstaklega. Þetta sýnir, á hvaða menningarstigi ráðherrann sjálfur er. Sýnir, hvaða spilling þjóðin hlýtur af því að hafa slíkan mann fyrir æðsta mann þjóðfjelagsins. Það land, er hefir slíkan mann fyrir ráðherra, hlýtur fyr eða síðar að falla niður í siðferðilega rotnun. Það var eins og kæmi brennivínskrampi í andlit hæstv. ráðh., þegar jeg mintist á aðgerðir hans í þessu máli. Þetta er líka eðlilegt; sök bítur sekan. Dómarinn hjer í bænum, háttv. þm. Seyðf. (JóhJóh), er hjer í deildinni til vitnisburðar um, að hæstv. ráðh. er sjálfur dæmdur vínsmyglari og bannlagabrjótur. Hjá honum fara saman orð og verk.

Jeg býst ekki við því, að jeg hafi með neitt siðferðisvottorð að gera. (Forsrh. JÞ: Hv. þm. hefir fengið það hjá þingdeild sinni). Jeg býst heldur ekki við, að það saki mig neitt, þótt hæstv. ráðh. gleðjist yfir því, að hafa fengið flokksmenn sína í þessari deild til þess að gera þau afglöp, sem jafnvel aumasta blað landsins, Morgunblaðið, aðalstuðningsblað stjórnarinnar, fann hvöt hjá sjer til að fordæma. Jeg þarf ekki að sækja siðferðisvottorð til hæstv. ráðh. eða stjórnarinnar. Jeg hefi mína „pappíra“ í lagi og þeir þurfa engrar uppáskriftar frá einum nje neinum, síst frá þeim, sem hafa sýnt opinberlega samúð með alræmdum föðurlandssvikara, og það á þann hátt, að líkast var, að um samsekt væri að ræða. Og þótt hæstv. ráðherra segi, að þessi margbrotlegi embættismaður standi hátt í borgarálegu tilliti, þá sýnir það aðeins, á hvaða siðferðisstigi hann sjálfur stendur, hann, sem er fallinn niður fyrir lágmark borgaralegs heiðarleika. En þetta hefir þýðingu að því leyti, hvort telja megi aðstöðuna trygga á öðrum sviðum, hvort sökudólgar fái aðhald hjá stjórninni; þegar sjálfur yfirmaður landsins hefir lýst yfir því, að hann telji dæmdan brotamann siðferðislega góðan og gildan, þá þarf ekki að spyrja að því, hvert aðhaldið væri, ef um aðra tegund afbrotamanna væri að ræða. Eftir þetta þýðir hæstv. ráðh. ekkert að vera að flagga með aðhaldi, því að hann hefir hjer reist sjálfum sjer óbrotgjarnan minnisvarða, þegar um rjettvísi er að ræða. Jeg vil benda hæstv. ráðh. á það, að hann sjálfur er dæmdur við lög landsins, dæmdur af bæjarfógetanum í Reykjavík, hv. þm. Seyðf. (JóhJóh), í nokkur hundruð króna sekt fyrir að reyna að lauma inn áfengi. Hæstv. ráðh. getur því ekki sett sig á háan hest. Hann getur ekki sett sig yfir lækninn á Ísafirði þar sem þeir eru báðir brotamenn. Jeg býst því ekki við að fá neina tryggingu fyrir því, að rjettlætinu sje fullnægt meðan núverandi stjórn situr við völd.

Ef meira hefði þurft með en þetta, þá hefir hæstv. ráðh. vitnisburð flokksmanns síns (HSteins) um það, hvernig eftirlitið er nú. Og þegar það er ekki betra hjá þessu sjerstaka íhaldshreiðri, þá má nærri geta, hvernig það er annarsstaðar. Hv. þm. Vestm. (JJós) sagðist svo oft hafa heyrt mig vitna í orð tveggja íhaldsmanna, að hann þyrfti ekki að heyra það oftar. En hann linaðist ennþá meir, þegar hann heyrði að nýju vitnisburð þessara flokksmanna sinna. Og svo bættist við 3. vitnisburðurinn frá hv. þm. Snæf. (HSteins) um það, hvernig íslensku togararnir væru verstir allra togara með landhelgisbrot. Hv. þm. Snæf. dregur enga dul á það og bætir því við, að þessi brot sje hægt að sanna með vitnaleiðslum manna úr landi og eins manna á togurunum. Það er því gagnslaust fyrir hv. þm. Vestm. að fara í kringum það, að hv. þm. Barð. (HK) hefir borið íslensku skipstjórana þyngstum dómi allra manna, og ennfremur að Ágúst Flygenring hafi sagt, að loftskeytatækin hafi verið sett í togarana til þess fyrst og fremst að stjórna lögbrotunum úr landi. Hv. þm. sagði þau vera notuð til annars, en gat þó ekki afsannað dóm Flygenrings.

Jeg hefi þannig bent á 3 íhaldsvitni í þessu máli, og það síðasta, hv. þm. Snæf., hefir sagt til litar nú í dag hjer í deildinni um það, hvernig lögbrotin eru framin rjett við nefið á íhaldsstjórninni, sem hefir sagt, að hún bæri málið sjerstaklega fyrir brjósti. Hv. þm. hefir misskilið, að jeg hafi talað um ofsókn. Jeg talaði um ásókn á skipstjóra sína og held mjer að dómi Ágústs Flygenrings, og þar sem Kveldúlfur vildi ekki segja upp skipstjóra sínum fyrir landhelgisbrotið, af því að maðurinn veiddi vel, þá tek jeg það svo, að samviskan hafi slegið framkvœmdarstjórana sem brotlega sjálfa. Og þá er erfitt fyrir dómarana að vera óháðir og því liggja sumir þeirra undir þeim grun, að þeir skoði sig eingöngu í þjónustu flokksins, sem þeir tilheyra, en ekki í þjónustu rjettlætisins. En þetta má aldrei koma fyrir með skipstjórana á þessum skipum. Jeg hefi lýst því dæmi, er stjórnin verðlaunaði mann fyrir sýnilegt lögbrot. En hv. þm. Vestm. sagði, að ekki væri hægt að beita ofsóknum gegn ölvuðum mönnum. Sekur togaraskipstjóri, er flýr, heldur, að það sje ofsókn, þegar hann er eltur. Þegar þjófurinn, sem sent hefir kjötið til Vestmannaeyja, er eltur, þá er jeg viss um, að hann kallar það ofsókn. En hvernig er nú hægt að gera mun á rjettlætinu og því sem þjófurinn kallar ofsókn? Kallar þá hv. þm. það ofsókn, þótt fullur læknir, sem ekki getur bundið um beinbrot í heilt dægur, sje settur frá embætti? Nei, jeg veit, að hv. þm. hefir verið skipað að greiða atkv. svona af mönnum sem eru undir áhrifum víns. Það er því ekki að tala um aðhald með þeim seku, eins marga málsvara eins og þeir eiga í þessari hv. deild.

Það var undarlegt, þegar hv. þm. Vestm. kom að því, að það hefði verið duglegur maður, sem var bráðabirgðaskipstjóri á Þór. Hv. þm. sagði, að hann hefði ekki haft næga mentun. En hann hafði þá mentun, sem kom fram í verkunum. Jeg skal játa, að jeg ber ekki mikla virðingu fyrir þeirri sjermentun, sem kemur fram í því að gera verkin seint og illa.

Annars hefir víst engin skýring komið frá stjórninni á því ósamræmi, sem kemur fram í þessu frv. og í frv. stjórnarinnar í Nd., sem nálega eyðileggur alla sjermentun skipstjórnarmanna.

Nú vil jeg spyrja hv. þm. Vestm. að því, hvort hann hafi ekki heyrt því fleygt, að einn af þessum sjermentuðu mönnum hafi mist íslenskan togara við Dyrhólaey, vegna þess, að hann gerði svo skakkar og ónákvæmar mælingar. Hann hafi ekki, vegna skorts á sjérmentun, gert nema nokkum hluta af mælingunum. Þegar svo málið hafi verið fannsakað, hafi hann reynst sekur. Er ekki eitthvað til í þessu? Ef svo er, þá er það átakanlegur vottur um skort á sjermentun þessara manna, ef þeir missa togara vegna þess skorts á algengri starfsþekkingu.

Jeg hefi skrifað hjá mjer, að hv. þm. Vestm. vill hafa yfirstjórn þessara mála í stjórnarráðinu. En jeg hefi nú upplýst það, að hæstv. forsrh. (JÞ) hefir ekki ofgnægð af siðferði. Jeg tel rjettara, að þessi mál væru falin Eimskipafjelaginu. Jeg skal benda á annað. Til að mynda sjer skoðun um ástandið í stjórnarráðinu, vil jeg benda á það, að í ráðherratíð Björns Jónssonar var flestalt starfsliðið þar á móti honum, og það svo mjög, að hann gat ekki treyst meira á trúnað þess en svo, að hin meira áríðandi skjöl ljet hann gera úti í bæ. Vera má nú, að stjórnarráðið hafi skift um ham til betra síðan. Jeg býst nú við því, að eftirlitið í þessum málum verði í stjórnarráðinu, en fulla tryggingu hefir maður ekki. Það, sem einu sinni hefir komið fyrir, getur komið fyrir aftur.

Þetta dæmi frá stjórnartíð Björns Jónssonar, ræða hv. þm. Snæf. (HSteins) og það, sem hv. 5. landsk. sagði í dag, sýnir, hversu erfitt er að framkvæma rjettlætið í landinu. En yfir tekur þó, er æðsti maður landsins lýsir yfir því, að hann hafi samúð með ranglætinu og lögbrotunum.

* Upphaf ræðunnar vantar frá hendi skrifara.