28.03.1927
Efri deild: 38. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 2196 í B-deild Alþingistíðinda. (1721)

18. mál, laun skipherra og skipverja á varðeimskipum ríkisins

Frsm. annars minni hl. (Jón Baldvinsson):

Jeg átti víst eitthvað ótalað við hv. frsm. meiri hl. (JJós). Hann var dálítið harðorður í ræðu sinni, því að það er svo, að ef farið er að finna að við varðskipin, þá er hv. þm. óðara rokinn upp, og stundum óþarflega hvasst. Hann breiddi sig ákaflega út yfir þann drengskap, er skipstjórar á varðskipunum sýndu, og það fer víst enginn að bera á móti því, að svo kunni að vera. En gallar eru á landhelgisgæslunni fyrir því, hversu miklir drengskaparmenn sem þessir skipstjórar eru sagðir vera. Það er með þennan drengskap, sem menn eru altaf að skjóta sjer undir og bera fyrir sig, eins og þegar þeir, sem stela, segja: grípið þjófinn. Það er engu líkara en eitthvað sje óhrein mjölögnin í pokahorninu hjá þeim, er þannig hrópa. Jeg get vel ímyndað mjer, að það sje rjett hjá hv. frsm. meiri hl., að yfirstjórn skipanna hljóti að vera í stjórnarráðinu, en afgreiðsla skipanna gæti eigi að síður verið t. d. hjá Eimskipafjelagi Íslands. Hv. þm. sagði, að gera þyrfti ýmsar ráðstafanir, t. d. útvega kol o. s. frv. handa skipunum, en það þyrfti vitanlega ekki síður, þó að yfírstjórn þeirra væri í stjórnarráðinu. Annars var mjer að detta í hug, að það mundi vera hentugra, að skipunum stjórnuðu viss hjeruð heldur en pólitísk stjórn, sem hefir togaraeigendur fyrir yfirstjórn. Með því fyrirkomulagi skilst mjer, að það væri tryggara, að skipin væru látin líta eftir á þeim stöðum, sem nauðsynlegast væri. Þau mundu þá fremur verða seld vestur í Jökuldjúp heldur en austur á Seyðisfjörð. Hæstv. stjórn hefir ekki farist svo vel í landhelgismálinu; það er t. d. kunnugt, að þegar hún ljet byggja Óðinn, reyndist hann alveg ómögulegur, þegar hann kom heim. Það hefir ekki verið sýnt fram á, að kostnaðurinn við afgreiðslu skipanna væri neitt minni í stjórnarráðinu en hann mundi vera annarsstaðar. Hvað fær skrifstofustjórinn í 1. skrifstofu stjórnarráðsins fyrir að annast um skipin? Það er kunnugt, að svona bitlingum er ausið út til ýmissa, t. d. vita menn, að einn úr stjórnarráðinu er endurskoðandi áfengisverslunarinnar og fær stórfje fyrir. Hv. þm. Vestm. sagði, að stýrimenn á þessum skipum þyrftu að hafa herforingjamentun. (JJós: Það sagði jeg aldrei). Undirrótin til þess, að gera á þessa menn að föstum starfsmönnum með óhóflegum launum handa foringjunum er auðsæ. Íhaldið fer ekki dult með, hvað fyrir því vakir, nefnilega að geta beitt fyrir sig þessu liði, þegar á þarf að halda. Hv. þm. Vestm. er altaf að tala um þennan drengskap. Mjer datt í hug, þegar jeg var að lesa blað, sem gefið ef út í Vestmannaeyjum, hvað drengskapurinn er þar á háu stigi. Blaðið er að tala um andstæðinga sína, og eins og í öllum íhaldsblöðum, er þar verið að skamma eitt bæjarfjelag, nefnilega Ísafjörð, af því að þar er Alþýðuflokkurinn í meiri hluta, og þess vegna er honum kent um ástandið og hann talinn hafa komið bænum á höfuðið. En þessi blöð þegja yfir því, sem er hin raunverulega orsök þessa ástands. Þau minnast heldur ekki á aðra staði, t. d. Bíldudal og Þingeyri, þar sem svipað er ástatt. Hvað er svo það, sem hefir skeð? Atvinnurekendur hafa hætt rekstrinum og komið bæjarfjelaginu í vandræði vegna atvinnuleysis. Þetta eru sjálfskaparvíti þeirra, sem með atvinnureksturinn fara. Af því að háttv. þm. (JJós) er svo hátíðlegur, er rjett að lofa honum að heyra, hvað hans eigið blað segir um þetta. (JJós: Þm. veit vel, að jeg á ekkert blað í Vestmannaeyjum). þetta blað hefir stutt hann til kosninga og hann hefir skrifað í það. Blaðið segir þar meðal annars um andstæðingablað sitt (Eyjablaðið):

„Það svívirðir landsstjórnina, dómstólana og rjettarfarið. Það ræðst á bankana og reynir til að veikja þá með rógi og níði. Með því og á annan hátt reynir það að brjóta atvinnuvegina. Það vill rugla heilann, tappa blóðið út úr hjartanu og brjóta beinin og þykist með því ætla að vinna gagn vöðvunum, — verkamönnum og sjómönnum.“

Hv. þm. (JJós) vill ekki kannast við þetta, og er þá best að fara í hans eigin grein í sama blaði og sjá, hvað drengskapurinn er þar á háu stigi. par segir hv. þm. meðal annars:

„— Á Ísafirði hafa afleiðingar niðurrifsstefnunnar, samfara erfiðu árferði, best komið í ljós. Þar hafa flokksbræður Eyjablaðsritstjóranna árum saman alið á æsingum og stjettahatri. Nú liggur útgerðin þar í kalda koli, atvinnuleysi fyrirsjáanlegt og sjómenn heita í vandræðum sínum á hið opinbera til hjálpar. Ekki þarf Íhaldsstjórn um að kenna þar. Nei, þar hafa jafnaðarmenn lengi haft meiri hluta í bæjarstjórn og notað hann sleitulaust til að ráða þar lögum og lofum. —“. Þetta finst mjer vera ódrengskapur, því að ástæðan til atvinnuleysisins á Ísafirði liggur hjá flokksmönnum hv. þm. Vestm., en ekki hjá jafnaðarmönnum á Ísafirði, og hv. þm. (JJós) veit það ofurvel.

Það er vitanlegt, að hneyksli hafa átt sjer stað í landhelgisgæslunni, bæði þegar togarinn var látinn sleppa á Akureyri, og annað gerðist undir söndunum hjer um árið, og fleira hefir komið fyrir, sem sýnir, að þetta er ekki heilbrigð gæsla. Við Snæfellsnes er fullyrt, að togarar hafi ekki verið annarsstaðar en í landhelgi nú fyrir skemstu. Einn togaraskipstjóri var grátklökkur yfir því, að fjelag hans hefði ekki ráð á að „risikera“ 30 þús. kr. í sektir, ef illa tækist til, svo að hann varð að flakka hingað og þangað. Og hvers vegna er þetta nú? Auðvitað af því, að varðskipið var ekki á þessum slóðum meðan fiskigangan er þarna vestur frá. þetta er í leikmanna augum svo einfalt mál, að hæstv. stjórn ætti að geta skilið það.

Jeg á eftir eina ræðu enn, ef tilefni gæfist til frekari athugasemda, og get því látið staðar numið að sinni.