28.03.1927
Efri deild: 38. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 2200 í B-deild Alþingistíðinda. (1722)

18. mál, laun skipherra og skipverja á varðeimskipum ríkisins

Frsm. meiri hl. (Jóhann Jósefsson):

Jeg veit ekki, að hvorum fóstbrœðranna jeg á að snúa mjer fyrst, hv. 1. landsk. (JJ) eða hv. 5. landsk. (JBald). En af því að það verður styttra, sem jeg þarf að tala við hv. 1. landsk., þá ætla jeg að snúa mjer fyrst að honum. Hann fór, eins og hann er vanur, úr einu í annað. Maður, sem var hjer í deildinni í 15 mínútur meðan hv. þm. var að tala, hafði ekki hugmynd um það, hvaða mál hann var að tala um. Hv. þm. (JJ) var að tala um drykkjuskap, en jeg held, að það sje ekki sprottið af sönnum bindindisáhuga, heldur af löngun til þess að hella sjer út yfir einstaka menn hjer í þinghelginni og nota sjer þetta sem vopn á hendur andstæðingum sínum. (JJ: Já, ef þeir væru fullir). Hann sagði áðan, að tveir templarar hefðu fengið hann til þess að flytja þetta drykkjuskaparfrumvarp. En jeg held, að þessir templarar hafi ekki verið hepnir í valinu. Þeir hafa sniðgengið sína fjelaga og fengið málið í hendur manni, sem notaði það til ásakana og aurausturs á hendur einstökum mönnum.

Þá gat háttv. þm. (JJ) um ræðu hv. þm. Snæf. (HSteins) og sagði, að hann hefði verið mjög óánægður með landhelgisgæsluna, en mjer fanst hann um leið gefa skýringu á því, hvernig á því hefði staðið á þessu tímabili, en hún var sú, að Íslands Falk var í lamasessi og Óðinn úti í Kaupmannahöfn og mig minnir, að hann segði, að Þór hefði verið upptekinn einhversstaðar annarsstaðar.

Háttv. 5. landsk. sagði, að skipin hefðu verið á flakki á þeim tíma, sem ónóg gæsla var við Ólafsvík. En þess verða menn að gæta, að það er ekki altaf sjálfsagt, að það sje varðskipunum að kenna, þó einhverju sje ábótavant. Jeg vil ekki saka þá um slóðaskap, varðskipsforingjana, hvort heldur þeir eru innlendir eða útlendir, nema ástæða sje til þess. Háttv. 5. landsk. sagði, að jeg væri á verði fyrir varðskipin. Já, jeg er þannig á verði, að jeg vil láta foringjana njóta sannmælis. Ef ráðist er ómaklega á þessa menn, sem jeg þekki að mjög góðu, þá tek jeg svari þeirra, og jeg get fullvissað hv. þm. um það, að hvenær sem hann ræðst þannig á saklausa menn, sem jeg þekki, og jeg má mál hans heyra, mun jeg taka svar þeirra. Háttv. þm. hefir ekki svarað þeirri höfuðsök, sem jeg bar á hann, að óvild hans til útgerðarmanna væri ástæðan fyrir framkomu hans í þessu máli, eins og raunar fleirum. Háttv. þm. bar það fram, að íhaldsútgerðarmenn hefðu valdið því, að smíði Óðins tókst svo illa. En dettur hv. þm. í hug, að nokkur trúi annari eins fjarstæðu og þessu? Nei, jeg veit, að honum er ekki alvara. En þessi nýja aðdróttun og getsök í garð útgerðarmanna sýnir greinilega, ef nokkuð hefði skort á það áður, hver hugur hans er til þessara manna, sem hafa stórfeldasta atvinnuveg þjóðar vorrar með höndum. Mannanna, sem stjórna útgerðinni og veita atvinnu fjölda verkamanna og sjómanna, sem hann þykist bera fyrir brjósti. Annars er ekki neitt sagt með því, að gaflar sjeu á landhelgisgæslunni, því hvenær er ekki hægt að finna gafla, þegar altaf eru rógtungur á ferðinni, sem rægja alt og gefa saklausum mönnum sökina. (JBald: Eins og Eyjablaðið!). Jeg sje það á öllum eyktamörkum, að það er nauðsynlegt að vera á verði, ef landhelgisgæslan verður framvegis ásótt með getsökum eins og við umr. um þetta mál. Það er einkennilegt, þegar allir eru sammála um það, að landið hafi sín eigin skip til landhelgisgæslu, að þessir hv. þm. skuli nú snúast öfugir við viðleitni. hæstv. stjórnar til þess að koma skipulagi á þessi mál.

Það hefir víst ekki verið í ógáti, að hv. 5. landsk. tók undir það með mjer, að rjett væri, að ríkisstjórnin hefði yfirumsjón Varðskipanna. Það er auðvitað góðra gjalda vert, að hann skuli samþykkja þetta. En aðrar bollaleggingar hans um stjórn skipanna voru svo broslegar, að jeg veit ekki, hvort jeg á að fara að skemta hv. deild með því að rekja þær hjer. Hann talaði um, að óheppilegt væri, að skipin stæðu undir pólitískri stjórn, og til þess að losna við póltíkina leist honum best á, að yfirmenn skipanna væru kosnir. Það á svo sem ekki að meta mennina eftir lærdómi eða þekkingu, heldur á að velja þá með kosningu, til þess að losna við pólitísk áhrif! Mjer finst næsta tilfinnanlegt, að það skuli vera landskjörinn þingmaður, sem heldur fram slíkri dómadagsvitleysu.

Það er óþarfi fyrir mig að minnast á þetta blað, sem háttv. þm. (JBald) var að tala um. Það er öllum í þessari háttv. deild vitanlegt, að jeg á ekkert blað, hvorki hjer nje annarsstaðar. En jeg get mint á blað, sem nákomið er þessum háttv. þm. og hann ræður víst miklu um, hvað í stendur. En þetta blað hans er, að jeg held, hið eina af íslenskum blöðum, sem aldrei hefir lagt björgunarskipsmálinu lið sitt, en það mál varð þó til þess að hrinda áleiðis landhelgisvarnamálinu yfirleitt. Hv. 5. landsk. getur kannske upplýst, að hann hafi skrifað greinar málinu til stuðnings, en þær hafa þá víst ekki birst í því blaði.

Hv. þm. bar enn á móti því, að skipstjórar varðskipanna þyrftu sjermentun til starfsins. Ef hann trúir mjer ekki, verður hann að snúa sjer til einhverra annara manna, sem hann trúir betur, innlendra eða útlendra, og spyrja þá, hvaða þekkingu og sjermentun þeir menn verði að hafa, sem taka að sjer að stýra vopnuðum varðskipum. Hann heldur, að togaraskipstjórar geti tekið þessi störf að sjer. Jeg held, að þeir geti það ekki nema afla sjer þeirrar sjermentunar, sem varðskipsforingjar verða að hafa. Það þarf engan veginn að gera lítið úr þeirri sjermentun. Þótt jeg nefndi hana með útlendu nafni hjer áður við umr. um þetta mál, skal jeg reyna þegar tóm gefst að skýra hvert sjerstakt atriði fyrir þessum hv. þm. (JBald), Jeg tel þarfleysu að tefja umræðurnar hjer með slíkum skýringum, sem hann einn virðist þurfa að fá.

Að síðustu skaust það upp hjá hv. þm., að ein af aðalástæðunum fyrir óvild hans til varðskipanna er sú, að honum þykir þar of mikið lögreglusnið á vera. Þegar ísl. ríkið tekur að sjer strandvarnir og siglir skipum sínum undir íslenskum fána, vill háttv. þm. ekki, að á því sje svipað snið og tíðkast hjá öðrum mentuðum þjóðum, af ótta við það, að þessu lögregluliði kunni að verða beitt gegn landsmönnum sjálfum. Það var ekki laust við ugg í Alþýðublaðinu út af þessu í vetur, enda þarf stundum minna til en vopnað varðskip til þess að flokksbræður hv. 5. landsk. sjái í því hættu fyrir „stríðið“ á hafnarbakkanum. Jeg vissi til þess á einum stað á landinu, að þeir voru hræddir við stofnun skátafjelags, af því að þeir hjeldu, að þar væri einhver vísir til ríkislögreglu. Það er einhver tegund af móðursýki í hv. 5. landsk., sem veldur því, að hann má ekki heyra lögreglu nefnda. Hann er víst hræddur um, að þessu lögregluliði á sjónum kunni að verða skotið upp á hafnarbakkann einhverntíma, þegar hann stikar þangað úr þinghúsinu til þess að stöðva vinnu, og er ekkert sjerlega glaður við þá tilhugsun.

Það hefir verið reynt mikið til þess að þyrla upp ryki út af þessu sjálfsagða frv. og vekja ástæðulausa tortryggni. Til merkis um óheilindi hv. 5. landsk. í málinu má benda á það, að hann fárast yfir því, að laun sumra skipverja sjeu sett alt of lág, en virðir þó að engu þá till. meiri hl. nefndarinnar, sem fer í þá átt að bæta úr þessu. Það, sem þessum hv. þm. gengur til að vilja ekki hafa ákvæði um föst laun á varðskipunum, er nú víst í raun og veru það, að honum þykir ilt að missa þessa menn undan krúnunni næst þegar hann reynir að gerast verkfallskóngur.

Jeg sje nú ekki ástæðu til að fara um þetta fleiri orðum. Jeg get fullyrt, að tortryggni háttv. 5. landsk. og aðdróttanir í garð yfirmanna varðskipanna hafa við engin rök að styðjast. Jeg þekki þessa menn miklu betur en hann og get fyllilega um þetta borið. Þó hægt kunni að vera að benda á einhverjar misfellur í starfinu, geta þær vel verið sprottnar af alveg óviðráðanlegum ástæðum. Jeg veit ekki, við hvaða störf háttv. 5. landsk. hefir verið mest riðinn önnur en brauðgerð. En jeg vil spyrja hann, hvort hann hafi aldrei sjeð neinar misfellur á störfum sínum, sem ekki hafi verið gerðar af ráðnum hug, og hvort honum finnist ekki ástæðulítið að gera úlfaþyt út af slíkum misfellum.

Þeir menn, sem hjer hafa orðið fyrir aðkasti hv. 5. landsk., eru drengskaparmenn og skylduræknir. Jeg sje ekki neina ástæðu til að væna þá um, að þeir gæti ekki skyldu sinnar við landhelgisvarnirnar.