28.03.1927
Efri deild: 38. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 2206 í B-deild Alþingistíðinda. (1724)

18. mál, laun skipherra og skipverja á varðeimskipum ríkisins

Magnús Kristjánsson:

Jeg ætla að leyfa mjer með örfáum orðum að gera grein fyrir, hvernig jeg lít á þetta mál. Jeg álít, að enn sje varla kominn tími til þess að fara að skipa þessu með lögum. Við erum komnir mjög skamt á veg í þessu efni og jeg lít svo á, að á næstu árum verðum við að bæta við a. m. k. 2 varðskipum. Jeg álít, að ekki sje hægt að komast af með færri en 4 varðskip, ef landhelgisgæslan á að vera í nokkru lagi, og ef vel væri, þyrftu þau að vera 5. Það veitir ekki af einu skipi til vara meðan hin fara í þurkví, eins og þau munu verða að gera einu sinni á ári til eftirlits og hirðingar. Þegar skipin væru orðin 5, held jeg, að frekar ætti við að fara að skipa þessum málum til fullnustu.

Að því er snertir yfirumsjón skipanna, held jeg að best færi á, að algerlega sjerstakur maður hefði það starf á hendi, auðvitað undir yfirstjórn stjórnarráðsins. Það þarf að vera maður, sem sje starfinu fullkomlega vaxinn og fær um að hafa á hendi alt eftirlit, sem þetta snertir. Mjer finst, að þessum manni ætti ekki að vera ofvaxið að sjá skipunum fyrir nægum mannafla á hvaða tíma sem væri, þótt skipverjar væru ekki gerðir að föstum starfsmönnum ríkisins.

Jeg held, að það þoli a. m. k. bið að skipa þessum málum, og mun því ekki greiða frv. atkv. Mjer finst, að það geti orðið nokkuð þunglamalegt fyrirkomulag að gera alla þessa menn að föstum starfsmönnum ríkisins. Jeg get ímyndað mjer, að mannaskifti verði nokkuð tíð á skipunum og ekki líklegt, að menn ílengist þar, enda ekki nauðsynlegt. Jeg þarf að skoða betur huga minn um þetta mál, áður en jeg get fallist á þetta fyrirkomulag. Jeg vona, að hv. deild sje ljóst, hvað fyrir mjer vakir. Jeg álít best, þegar skipunum fjölgar, að þau standi undir umsjón alveg sjerstaks gæslumanns, og jeg held, að þá sje nógur tími til að athuga; hvaða fyrirkomulag hentar best að öðru leyti.