28.03.1927
Efri deild: 38. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 2207 í B-deild Alþingistíðinda. (1725)

18. mál, laun skipherra og skipverja á varðeimskipum ríkisins

Forsrh. og fjrh. (Jón Þorláksson):

Jeg get ekki almennilega skilið afstöðu þeirra manna, sem vilja vísa þessu máli frá af þeirri ástæðu, að ekki sje nauðsynlegt, að þingið taki ákvörðun um þessi laun. Sú hugsun liggur þá bak við, að stjórnin skuli ákveða, hvað borgað sje. En jeg segi alveg eins og er, að mjer finst hjer um svo stóra starfsgrein að ræða, að með því sje stjórninni fengið meira vald í hendur en eðlilegt er eftir stjórnarskránni. Eftir þeirri aðgæslu, sem Alþingi er ætlað að hafa á fjárhag ríkisins, getur það ekki skotið sjer undan að taka ákvörðun um, hvað greiða eigi öllum þessum starfsmannafjölda í laun. Það er örðug aðstaða fyrir stjórnina að standa í samningum við stóra starfsmannaflokka um kaup. Aðstaða stjórnarinnar er þar miklu verri en Alþingis. Þegar búið er að ákveða starfslaun með lögum, sýnir reynslan það, að jafnaðarlega fást nýtir menn til starfans, og þykjast þar með ná þeirri tryggingu fyrir framtíð sína, sem þeir álíta að slíkt sje. En ef vitað er, að stjórnin hefir á sínu valdi upphæð kaupsins, má búast við hvíldarlausri ásókn frá starfsmönnunum um að fá bætt kjör sín, og það getur verið erfitt fyrir stjórnina að taka á móti þeim kröfum hvenær sem er. Það er vanþakklátt að standa gegn slíkum kröfum og gæti verið freisting fyrir stjórnina að láta fremur undan þeim heldur en að standa á verði fyrir hagsmuni ríkissjóðs. Hv. 4. landsk. (MK) færði ekki fram aðrar ástæður fyrir því, að hann væri á móti frv., en þær, að það væri nokkuð þunglamalegt að setja þessa menn á föst laun. Jeg er á alveg gagnstæðri skoðun. Jeg get vitnað til launalaganna frá 1919. Jeg er viss um, að þau hafa sparað ríkissjóði útgjöld síðan, sem skifta miljónum. Stjórnin hefir ávalt getað vísað í þau lög og að eftir þeim yrði að fara. Jeg held, að hollast væri að hafa svo um búið á þessu sviði líka. Það er ekki hægt að neita hinu, að með því að hafa sjerstakan forstöðumann væri altaf hægt að fá fólk, með því að slaka til eftir þeim kröfum, sem fram kæmu. En jeg tel ekki heppilegt fyrir ríkið, að á einu starfssviði sje um meiri tilslakanir að ræða en á öðru. Það skapar óánægju hjá þeim, sem verða að sætta sig við hin lögmæltu laun.

Jeg fer ekki út í þær ræður, sem hjer hafa verið haldnar utan við efni þessara laga. Mjer finst frv. ekki gefa neitt tilefni til þess að ræða um tilhögun strandgæslunnar yfirleitt.

Þessu er þannig fyrir komið, að ráðstafanir um ferðir skipanna, hvar þau halda uppi gæslu, er í höndum Skrifstofustjórans í þeirri deild stjórnarráðsins, sem þessi mál heyra undir, og þar er þeim best komið, því að þangað koma allar kvartanir um ágang togaranna; er því best, að fyrirskipanirnar gangi beint þaðan til skipstjóra varðskipanna. Einfaldara og greiðara held jeg, að þessu verði ekki fyrir komið.

Reikningshald fyrir skipin og eftirlit með vjelum þeirra er í höndum skrifstofu þeirrar, sem landið heldur hvort sem er til þess að annast eftirlit með skipum og bátum og öryggi þeirra, því að svo stendur á, að forstjóri hennar er sjerstaklega vel hæfur til þess að hafa eftirlit með vjelunum. Og þó að dálítið þurfi að greiða skrifstofu þessari, þá er það hverfandi hjá því að hafa sjerstaka skrifstofu til þess að annast þetta.

Það mun nú vera þetta starf, sem talað er um að fela Eimskipafjelaginu. Og ef horfið yrði að því ráði, þá yrði það þó að minsta kosti að leita aðstoðar sjerfræðinga með það, er vjelunum viðkæmi, því að ekki hefir það á að skipa sjerfræðingum á því sviði. Þetta meðal annars gæti orðið til þess, að út frá Eimskipafjelaginu vitnaðist um ferðir og hreyfingar skipanna. (JBald: Stjórnarráðið er líka lekt). Nei, stjórnarráðið er ekki lekt. Jeg verð því að telja það tæplega forsvaranlegt að láta Eimskipafjelagið hafa umsjón skipanna að þessu leyti, en þetta fyrirkomulag, sem nú er, hefir reynst vel og er kostnaðarlítið; auk þess hefir það þann kost, að hvenær sem þurfa þykir er hægt að breyta þessari tilhögun, án þess að nokkur starfsmaður þurfi að víkja. Jeg held því, að eins og skipastóllinn er nú, þá geti þessi tilhögun vel verið nú fyrst um sinn.