28.03.1927
Efri deild: 38. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 2210 í B-deild Alþingistíðinda. (1726)

18. mál, laun skipherra og skipverja á varðeimskipum ríkisins

Magnús Kristjánsson:

Mjer skildist á hæstv. forsrh. (JÞ), að jeg hefði ekki fært næg rök fram fyrir þeirri tilhögun, sem jeg var að benda á. Þetta má vel vera, en jeg er svo gerður, að jeg vil sem minst tala um það, sem ekki liggur fyrir til umræðu, og því má vera, að jeg hafi verið stuttorðari en skyldi. Aðalástæðan, sem jeg bar fram, var sú, að mjer fyndist þetta fyrirkomulag, sem frv. gerir ráð fyrir, ætla að verða nokkuð þungt í vöfunum, og er það út af fyrir sig nokkur ástæða. Þá má og geta þess, að þegar mönnum þessum er ætlað að leggja fje í lífeyrissjóð embættismanna, þá eykur það starf þeirra, sem um hann eiga að sjá.

En það, sem aðallega vakti fyrir mjer, er, að þar sem það er svo margt, sem stjórnin hefir með höndum í þessum málum, alt sitt úr hverri áttinni, þá gæti það verið heppilegt að færa öll þessi margbrotnu störf í eina heild undir stjórn eins manns, og það því fremur, sem ekki er hægt að ætlast til, að stjórnarráðsskrifstofurnar hafi þeirri sjerþekkingu á að skipa, sem þarf til að leysa öll þessi störf vel af hendi.

Jeg tel því nauðsynlegt, að með þessi mál fari maður, sem hefir sjerþekkingu á þessum hlutum, en jeg get ekki búist við, að stjórnarráðið geti framvegis notið þeirrar sjerþekkingar, sem með þarf, ef það má ekki verja til þess þeim launum, sem nokkur getur sætt sig við. Auk þess, sem búast má við, að kröfurnar um fleiri varðskip verði háværari og háværari, því að enn sem komið er má heita, að landið sje gæslulaust, því að það er vitanlegt, að danska landhelgisgæslan kemur ekki að þeim notum sem skyldi, enda þótt svo hafi viljað til, að danska varðskipið hafi þessa síðustu daga verið venju fremur heppið að rekast á sökudólga, og hlýtur því að draga til þess, að hún hverfi úr sögunni, og tel jeg okkur lítinn baga að því. Jeg álít strandgæsluna sem sje ekki örugga nema með fjórum góðum varðskipum, og þegar svo er komið, verður að álítast nægilegt starf fyrir einn mann að sjá um þau öll, auk þess sem hann þyrfti að annast um öryggi skipa og sjá um, að skipaskrárnar væru í lagi.