28.03.1927
Efri deild: 38. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 2247 í B-deild Alþingistíðinda. (1732)

18. mál, laun skipherra og skipverja á varðeimskipum ríkisins

Frsm. annars minni hl. (Jón Baldvinsson):

Tvö atriði í ræðu hæstv. forsrh. (JÞ) sýna, í hvert óefni er komið fyrir honum og stjórninni. Hann greip til þess að nota ókvæðisorð, eins og þegar hann sagði, að menn væru að ófrægja landið út á við með því að finna að útgerð varðskipanna í höndum stjórnarinnar. Hann var líka að tala um það, hæstv. forsrh., að jeg legði það í vana minn að kveikja óánægju. Jeg skal ekki bera það af mjer, en jeg skammast mín ekkert fyrir það, ef það er gert til þess að bæta kjör þeirra, sem bágast eiga. Hæstv. forsrh. ætti að líta í sinn eiginn barm og sjá, hverjum hann vildi hjálpa, þegar hann ætlaði að gefa stærstu efnamönnum landsins eftir 600 þús. krónur! Jeg stend því jafnrjettur fyrir ásökunum hans. Rjettmæt óánægja er ekki eins vond eins og menn alment leggja í það orð. En óánægja sú, sem íhaldsstjórnin hefir vakið, er svo mögnuð og rótgróin, að það er ekki að furða, þótt menn þreyi þann dag, að hún veltist úr sessi, enda er þess nú vonandi skamt að bíða, að svo verði.

Þá sagði hæstv. forsrh., að jeg færi með Gróusögur í sambandi við landhelgisgæsluna. Þetta eru óforsvaranleg orð, því að allir menn hjer í bæ og alstaðar úti um land, þar sem gæta þarf landhelginnar, vita það, að það er eins og fullkomið samband sje milli íslensku togaranna og stjórnarinnar. Hv. þm. Barð. (HK) og hv. þm. Borgf. (PO), sem báðir eru fylgismenn stjórnarinnar, hafa sagt, að íslensku togararnir væru verstu landhelgisbrjótarnir og að þeir teymdu erlenda togara inn í landhelgi. En hvernig stendur þá á því, að þeir sleppa altaf? Er það stjórninni að kenna? Það er einmitt gott fyrir hæstv. forsrh. að heyra það, að menn vita þetta, svo að hann geti hagað sjer öðruvísi eftirleiðis.

Hv. frsm. meiri hl. (JJós), var að dylgja eitthvað um þá fortíð, er jeg hefði gagnvart útgerðinni, en jeg leiði minn hest hjá því að skilja hans dularfullu röksemdir.