28.03.1927
Efri deild: 38. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 2248 í B-deild Alþingistíðinda. (1733)

18. mál, laun skipherra og skipverja á varðeimskipum ríkisins

Forsrh. og fjrh. (Jón Þorláksson):

Hv. 5. landsk. (JBald)) fanst jeg nokkuð harður við sig, þá er jeg bar honum það á brýn, að hann legði það í vana sinn að kveikja óánægju, en þó kannaðist hann við, að þetta væri rjett. Þetta var nú virðingarverð samviskusemi, en þó tók hann aftur með þessu það, sem hann hafði sagt áður, að ef fólk væri ánægt, þá ynni það störf sín betur en ella. Nú segist hann vilja, að menn sjeu óánægðir.

Hann reyndi þá að bera það af sjer, að hann hefði farið með Gróusögur, en hvað eru það annað en Gróusögur að ófrægja rakalaust í augum útlendinga þá menn, sem eiga að halda hjer uppi landhelgisgæslu. Við aðra menn gat hann ekki átt, nema þá að hann hafi átt við þann mæta mann í landi, er segir skipunum fyrir verkum. Að stjórninni verður ásökunum hans eigi beint. En hann verður að kunna sig svo vel að vera ekki að glamra með það hjer í þinginu, að strandvarnarskipin sjeu hlutdræg í sínu starfi, sjái gegnum fingur við íslenska togara, en ofsæki útlendinga.