17.05.1927
Neðri deild: 77. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 2253 í B-deild Alþingistíðinda. (1743)

18. mál, laun skipherra og skipverja á varðeimskipum ríkisins

Ásgeir Ásgeirsson:

Jeg var ekki á nefndarfundi, þegar málið var afgreitt, en hefi að vissu leyti líka aðstöðu og hv. 1. þm. Rang. (KIJ), — þá, að jeg mun greiða atkv. á móti frv. Það byggist einkum á þeirri gömlu hugmynd og góðu, sem þyrfti að athuga betur áður en þessu máli verður ráðið til lykta, nefnilega hvort ekki muni vera hægt að gera þessi varðskip ríkisins að skólaskipum í einhverri mynd. Jeg hefi minst á þetta við sjómenn, sem hafa tekið vel undir þennan möguleika og álíta, að gagn gæti af hlotist.

Af þessari ástæðu meðal annars mun jeg að þessu sinni greiða atkv. móti slíku frv. Jeg sje ekkert við það að athuga, að menn á þessum skipum sjeu nefndir sýslunarmenn, þótt ekki sjeu laun þeirra ákveðin í lögum. Eru margir sýslunarmenn í landinu, sem ekki hafa lögákveðin laun.