17.05.1927
Neðri deild: 77. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 2257 í B-deild Alþingistíðinda. (1748)

18. mál, laun skipherra og skipverja á varðeimskipum ríkisins

Forsrh. og fjrh. (Jón Þorláksson):

Jeg vil benda hv. þm. V.-Ísf. (ÁÁ) á það, að engir erfiðleikar verða á því að skifta um menn á skipunum, ef að því verður horfið að gera þau að skólaskipum. Í lögum um stöður þessara manna, sem afgr. voru frá þinginu, er ákvæði um, að þeir skuli ráðnir með 6 mánaða uppsagnarfresti, og auðvitað verður það ákvæði notað, ef með þarf.

Hv. 4. þm. Reykv. (HjV) gat þess, að jeg hefði ekki verið viðstaddur umr. í deildinni um það mál. Það er rjett; jeg var þá bundinn í Ed., en eigi að síður kom jeg hjer og lýsti afstöðu minni til þeirra brtt., er snertu minn verkahring. Háttv. þm. (HjV) þykja launin of lág. Jeg get vel skilið það, því að hann mun ekki telja sig kominn á þing til þess að ríkissjóður og þegnar landsins sleppi með svo hófleg útgjöld, sem tiltækilegt er, og koma þessi ummæli hans mjer því ekki á óvart.

En launin eru í frv. ákveðin að minsta kosti eins há og þau, sem skipverjar eru nú ráðnir fyrir yfirleitt.

Reynslan hefir þannig sýnt, að það fást hæfir menn til þess að gegna þessum störfum, þótt launin sjeu ekki hærri, og að stöðurnar eru meira að segja eftirsóttar. Enda fylgja þeim ekki svo lítil hlunnindi, því að mennirnir hafa þarna ókeypis bústað og fæði, auk launa. Hitt kom mjer mjög á óvart, að heyra hv. þm. Barð. (HK) koma fram sem fyrirsvarsmann fyrir sömu skoðun. Þessir hv. þm. staðhæfa, að launakjör frv. sjeu rýrari en á íslenska verslunarflotanum. Ekki hefi jeg þó heyrt nein rök frá þeim fyrir þessum staðhæfingum sínum, svo sem samanburð á þessum launakjörum, eða því um líkt. Jeg vil bæta því við, að þó svo væri, að launakjör þau, sem tiltekin eru í frv., væru lægri en á skipum Eimskipafjelags Íslands eða verslunarskipum ríkisins, þá væri það ekki mikil sönnun, — því að hvernig gengur sá atvinnurekstur? Þolir hann að greiða það kaup, sem þar er greitt? Það er mjög tvísýnt, þegar þess er gætt, að skip ríkisins sigla með miklum halla, og fyrir Eimskipafjelagi Íslands gekk svo síðastliðið ár, að ekkert var afgangs beinum rekstrarkostnaði, ekkert til fyrir fyrningu skipanna, greiðslu á vöxtum af hlutafje o. s. frv. Afkoma þessi sýnir, að tilkostnaðurinn er of hár, og kaupgreiðsla þar er ekki rjettur mælikvarði.