17.05.1927
Neðri deild: 77. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 2258 í B-deild Alþingistíðinda. (1749)

18. mál, laun skipherra og skipverja á varðeimskipum ríkisins

Hjeðinn Valdimarsson:

Hæstv. ráðherra kom snöggvast inn í deildina við umr. frv. og hjelt þar ræðu, sem hann hafði fyrirfram skrifað, en hafði engan mann heyrt tala hjer, og kom því eins og álfur utan úr hól.

Hann gat þess nú, að engin rök hefðu verið færð fyrir því, að launin, sem frv. tiltekur, væru lægri en á verslunarskipum ríkissjóðs.

Hjer voru lesnar upp tölur samkv. kaupsamningi háseta, kyndara, vjelstjóra og stýrimanna. Auk þess var bent á, að yfirmenn skipanna hafa rjett til eftirlauna án þess að greiða neitt sjerstakt og að hækkun á launum þeirra er meiri en tiltekin var í stjfrv. Það er leitt að þurfa að láta þetta koma tvisvar í Alþt., vegna þess að hæstv. ráðh. er ekki viðstaddur umr.

Þá er það mjög undarlegt af hæstv. forsrh. að telja það sjerstakan kost, að skipverjar varðskipanna fái ókeypis bústað. Mjer er spurn, hvar eiga þeir að hafa bústað, ef ekki um borð í skipunum? Eða eiga þeir kannske að greiða sjerstaka leigu fyrir að fá að sigla með skipunum? Slíkt fyrirkomulag mundi vera einsdæmi í heiminum.

Hæstv. ráðherra (JÞ) gat þess, að rekstur Eimskipafjelagsskipanna og verslunarskipa ríkissjóðs væri ekki svo góður, að hann væri eftirbreytnisverður. Um strandgæsluskipin er öðru máli að gegna, þau ber ekki að álíta sem atvinnurekstur, enda eru strandvarnir ekki stundaðar til þess að afla ríkissjóði tekna, heldur til þess að verja landhelgina. Er því ekki hægt að færa þá ástæðu til að láta sjómenn á strandvarnaskipunum búa við lakari kjör en aðra sjómenn.

Um laun dönsku sjómannanna er það að segja, að þau eru lík launum hinna íslensku, og er samt enginn halli á rekstri Sameinaða fjelagsskipanna, svo að launahæð sjómanna á ísl. skipunum virðist ekki vera þess valdandi, að þau gefi ekki arð. Nei, hallinn hjá Eimskipafjelagi Íslands er stjórn þess fjelags að kenna, og jeg veit ekki betur en að hæstv. ráðh. (JÞ) sje í þeirri stjórn.

Hæstv. ráðh. gat þess, að mjer mundi annara um annað en að gera ríkissjóði sem ódýrast að fá menn á skipin. Þetta er alveg rjett; jeg lít svo á. að ríkissjóði beri að borga sómasamlegt verð fyrir vinnuna, sem sje nægilegt handa mönnunum til þess að framfleyta sjer og sínum, en að það sje ríkinu ekki samboðið að leita lægsta markaðsverðs á vinnunni, og nota jafnvel bolmagn til að koma kaupgjaldi einnar stjettar þjóðfjelagsins neðar en atvinnurekendum tekst. En það er hæstv. ráðh. að gera; hann er að reyna að lækka kaup yfirleitt hjá sjómönnunum. Það verður síðar vitnað í þetta frv., ef það nær fram að ganga, og hjer er því verið að ganga erindi útgerðarmanna, en ekki landsmanna í heild. Það munar ekki miklu fyrir ríkissjóð, þótt kaupgjald væri hærra, en það mundi tryggja betri menn og ánægðari á skipin, og þar af leiðandi öruggari strandgæslu.